138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forsvarsmenn Landsbankans þurfa vitaskuld að fara eftir jafnréttislögum og verði þetta frumvarp að lögum verða þeir að fara eftir þeim lögum. Að öðru leyti lít ég svo á að það sé fyrst og fremst hlutverk Bankasýslunnar að móta með sinni eigendastefnu þau viðhorf sem Landsbankinn getur haft til hliðsjónar þegar hann mótar sína eigin stefnu í þessum málum. Vitaskuld er það alveg óásættanlegt fyrir alla ef það verður veruleg skekkja í kynjahlutföllum í þeim stjórnum sem starfa í umboði stjórnenda Landsbankans eins og reyndar stjórnenda annarra banka.

Varðandi eignarréttinn og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar lít ég svo á að löggjafanum sé vitaskuld heimilt að setja nauðsynleg og málefnaleg skilyrði í lög, jafnvel þótt þau í einhverjum skilningi þrengi athafnafrelsi þegnanna ef fyrir því eru eðlilegar og málefnalegar ástæður. Mér finnst ekkert ómálefnalegt t.d. að ríki geri þá kröfu til stjórnarmanna í stórfyrirtækjum sem sitja í umboði ríkisins að þeir hafi öðlast eða aflað sér tilskilinnar menntunar eða menntunar sem nýtist vel í starfi. Ég held að það hljóti að sama skapi að vera innan ramma þess sem stjórnarskráin leyfir að setja því einhverjar skorður hvort menn mega ganga algjörlega fram hjá kynjahlutföllum í skipun í stjórnir hlutafélaga, jafnvel þótt þau séu að fullu í einkaeigu.