138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[11:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að við séum að fara að greiða atkvæði um nákvæmlega þetta frumvarp og öll þau atriði sem eru í þessu máli því að þótt við tölum mest um kynjahlutföllin í stjórnum eru tvö önnur atriði sem eru mjög góð í þessu máli.

Þegar hv. þm. Pétur Blöndal talar um að það hafi ekki gert neitt, og hann hefur sýnt mér ræðu sem hann hélt fyrir 20 árum síðan, ætti hann kannski að líta svolítið í eigin barm og skoða afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Hvaða flokkur er það sem var við stjórnvölinn allan þann tíma? (Gripið fram í.) Við sjáum það (Gripið fram í.) í þessari afstöðu að þetta eru rökin fyrir því af hverju ekkert hefur gerst. Nú erum við hins vegar að fara að breyta þessu. Við ætlum að sjá til þess að orð muni standa í samningunum milli aðila vinnumarkaðarins. Þetta er prinsippmál fyrir framsóknarmenn og við munum segja já.