138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:24]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um heilsugæslu á Suðurnesjum. Þar hefur verið slugsað til margra ára og ekki gert upp eins og eðlilegt er til að sinna þjónustunni og þar er ekki við núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra að sakast. Ég vil víkja nokkrum spurningum að ráðherra.

Heilbrigðisráðuneytið er yfirstjórn HSS, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Hver er stefna yfirstjórnarinnar gagnvart þjónustu HSS? Er til að mynda gert ráð fyrir áhættufæðingum? Fæðingarþjónusta HSS hefur verið eins konar flaggskip sjúkrahússins í einhverju mest vaxandi byggðarlagi á Íslandi, 17 þúsund íbúar árið 2004, 25 þúsund íbúar 2010. Hver er lágmarksþörfin fyrir skurðstofu? Það þarf að skoða strax. Mundi hæstv. ráðherra setja sig sérstaklega á móti því eða gera athugasemdir við að HSS leigi út skurðstofur fyrir utanaðkomandi íslenska eða lækna erlenda, eða íslenska sjúklinga og erlenda sjúklinga? Er ráðuneytinu kunnugt um að skurðstofur hafi verið leigðar út í Hafnarfirði, á Akranesi, á Suðurnesjum og víðar? Á 500 manna borgarafundi í Reykjanesbæ fyrir skömmu léði hæstv. ráðherra máls á því að skurðstofur yrðu opnaðar og opnar í einhverjum mæli. Þá þarf að meta það út frá lágmarki, þótt forsendur séu að sjálfsögðu mismunandi, ef opnað verður fyrir leigutekjur af fullkomnum búnaði í þessum efnum og á Suðurnesjum. Ábatinn færi til samfélagsins, það er hugmyndin. Um 1.700 millj. kr. fara í heilbrigðisþjónustuna á Suðurnesjum, líklega um 1.000 millj. í sjúkraþjónustuna og um 700 millj. í heilsugæsluna, sem er sannarlega kolsvelt á Suðurnesjum. Þrátt fyrir gífurlega íbúaaukningu, eins og ég gat um áðan, var fjármagn til þjónustunnar á svæðinu ekki framreiknað miðað við staðla fyrr en 2009. Þá var síðasta árið sem nú er liðið reiknað inn. Þarna munar 100 millj. kr., líklega um 300 millj. varðandi heilsugæsluna, en þó er halli sjúkrahússins, HSS, á þessu tímabili 80 millj., sem lofað var að bæta en hefur ekki verið réttur enn. Ég spyr hæstv. ráðherra um þetta.

Á Suðurnesjum er langlægsti kostnaður við heilsugæslu á öllu landinu, ekki bara í heilsugæslunni heldur einnig í sjúkraþjónustunni. Á fyrrnefndum fjölmennum borgarafundi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja léði hæstv. heilbrigðisráðherra máls á möguleikum á að þiggja boð allra sveitarfélaga á Suðurnesjum um að heimamenn tækju að sér rekstur allrar heilbrigðisþjónustunnar sem tilraunaverkefni. Hefur ráðherra svarað erindi allra bæjarstjórnanna um að koma á fundi með ráðherra og forsvarsmönnum sveitarfélaganna? Hæstv. ráðherra óskaði eftir bréfi. Bréfið er komið. Vinna þarf skjótt að lausn. Mikill hópur þjálfaðs starfsfólks HSS, sérmenntað og sérþjálfað með langa reynslu að baki, má ekki hanga í lausu lofti. Þegar fjármagnsramminn var reiknaður á réttum forsendum sl. ár, fimm árum of seint og án tillits til þessara fimm ára vantaði þó íbúa Ásbrúar þar inni í, á menntasviðinu aðallega, nær 1.000 manns. Allt þetta verður að taka inn í myndina og drífa í að leysa. Það eru öll færi á að gera það. Heilsugæslan á Suðurnesjum er rekin eins og í hverju öðru dreifbýli með bráða- og slysaþjónustu eins og til að mynda læknavaktin og slysadeildin í Reykjavík. Annað er ekki hægt að bjóða upp á í samfélagi Suðurnesjamanna. Það hefur ekki verið óskað eftir lausnum á vanda HSS varðandi trygga þjónustu með því að færa kostnaðinn yfir á skattborgarana heldur með útsjónarsemi og nýtingu í fyllsta máta og leigutekjum til að tryggja þjónustuna en auka um leið umsvif með fleiri starfsskyldum, boði á þjónustu sem vantar nú en styrkir fyrst og fremst grunnþjónustuna á Suðurnesjum án aukaútgjalda fyrir ríkissjóð. Það gefur miklu fremur möguleika á meiri skatttekjum til handa ríkissjóði og minni kostnaði á rekstri þjónustunnar.

Einingarverð er, eins og ég gat um áðan, eitt það lægsta í HSS af sjúkrahúsum landsins. Það segir sitt og það er spennandi að fylgja þessu eftir. Í maí er ætlunin að skurðstofu verði lokað, að öllu hjúkrunarfólki verði sagt upp á skurðstofu og engin skurðstofa verði hjá HSS. Það hefur gríðarlega mikil áhrif á alla þjónustuna fyrir þessa 25 þúsund íbúa á Suðurnesjum. Fæðingardeildinni, sjálfu flaggskipinu, er ætlað að hverfa.