138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:16]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á gjaldmiðilsmálum, en ásamt þeirri sem hér stendur er flutningsmaður hv. þm. Ásmundur Einar Daðason.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera víðtæka úttekt á helstu framtíðarkostum Íslands í gjaldmiðilsmálum, sem verði liður í því að renna stoðum undir sjálfbæra þróun íslensks samfélags. Teymi erlendra og innlendra sérfræðinga úr ólíkum áttum og af mismunandi fagsviðum verði fengið til að gera úttektina og skal það:

a. leggja heildstætt mat á kosti og galla íslensku krónunnar sem framtíðargjaldmiðils landsins og útlista þá þætti hagstjórnar og regluverks sem þá þurfa að vera fyrir hendi,

b. gera rannsókn á því með hvaða hætti íslenska krónan hefur gagnast eða íþyngt þjóðarbúinu við að vinna sig út úr yfirstandandi kreppu og hagsveiflum fyrri tíðar og til samanburðar rekja reynslu annarra sambærilegra hagkerfa sem hafa lent í harkalegri kreppu en eru hluti af stærra myntsvæði, svo sem evru,

c. leggja heildstætt mat á kosti og galla upptöku annarrar myntar fyrir íslenskt hagkerfi til lengri og skemmri tíma, svo sem evru, bandaríkjadals, norskrar eða sænskrar krónu.

Frú forseti. Það er áríðandi að fram fari ítarleg og vönduð greining á þeim kostum sem Íslendingum bjóðast í gjaldmiðilsmálum. Tillaga þessi gerir ráð fyrir því að helstu möguleikar verði raktir og útlistaðir kostir og gallar hvers möguleika fyrir sig.

Mikilvægt er m.a. að huga að tvennu: Í fyrsta lagi hvaða fyrirkomulag er heppilegast til að tryggja stöðugleika. Reynslan kennir að lítill gjaldmiðill getur hæglega orðið leiksoppur á fjármálamörkuðum og út á hann gert í leit að hagnaði. Spyrja þarf hver sé reynslan af smáum gjaldmiðlum og hvaða ráð dugi best til að verja þá. Umræða um gjaldmiðilsmál virðist í of ríkum mæli einkennast af fyrir fram gefnum niðurstöðum og afstöðu hlutaðeigandi til framtíðar Íslands innan eða utan Evrópusambandsins. Meintar ástæður hruns gjaldmiðilsins í kjölfar bankakreppunnar vekja upp spurningar um hvort stundum sé verið að hengja bakara fyrir smið, hvort gjaldmiðillinn sé látinn gjalda fyrir slæma fjármála- og efnahagsstjórn, dómgreindarleysi og jafnvel ónægt eftirlit. Í annan stað þarf að huga að kostum og göllum krónunnar við erfiðar aðstæður í efnahagslífinu. Enda þótt Ísland yrði hluti af stærra myntsvæði yrðu Íslendingar ekki þar með lausir við efnahagsþrengingar í framtíðinni. Þá vaknar sú spurning hvaða fyrirkomulag í gjaldmiðilsmálum hentar best við slíkar aðstæður og hvaða hagstjórnartæki þurfa að vera til staðar.

Fáir deila um það að hrun gjaldmiðilsins á sér tvær hliðar. Annars vegar verða öll aðföng til landsins dýrari og kaupmáttur þjóðarinnar rýrnar. Hin hliðin á þeirri krónu er svo sú að kjaraskerðingin gengur yfir allt samfélagið en bitnar ekki einvörðungu á hluta þess. Kjaraskerðingin er annað orðalag fyrir kaupmáttarrýrnun sem gagnast útflutningsfyrirtækjum. Þau fá meira í sinn hlut í krónum talið á erlendum mörkuðum fyrir minni launakostnað innan lands. Ætla mætti að stöðugri gjaldmiðill hefði e.t.v. leitt til stóraukins atvinnuleysis hérlendis.

Tillaga þessi gerir ráð fyrir því að farið verði í saumana á þessum þætti og gerð fagleg og ítarleg úttekt á því með hvaða hætti íslenska krónan gagnast þjóðarbúinu og samfélaginu við að vinna sig út úr kreppuástandi. Í úttektinni skal hafa til samanburðar nokkur vel valin svæði þar sem evra er gjaldmiðill og aðrir stórir gjaldmiðlar á svæðum þar sem miklir erfiðleikar hafa steðjað að. Fara þarf í saumana á því með hvaða hætti gjaldmiðlarnir hafa hjálpað þeim samfélögum að vinna bug á efnahagserfiðleikum og þá einnig hvernig ósveigjanleikinn hefur komið þeim í koll til samanburðar við það sem á sér stað á Íslandi.

Þá er mikilvægt að greina ítarlega kosti Íslands til upptöku annars gjaldmiðils. Því hefur ítrekað verið haldið fram í opinberri umræðu að eina leið Íslands til að verða hluti af stærra myntsvæði sem hentaði íslensku hagkerfi væri að ganga í Evrópusambandið. Ýmsir álitsgjafar hafa verið á öðru máli og bent á aðrar leiðir sem færar eru, ef á annað borð er talið heillavænlegt að skipta um gjaldmiðil til frambúðar. Í stað þess að einungis sé slegið fram einni leið í þessum efnum, inngöngu í Evrópusambandið, er mikilvægt að bæði þingheimur og allur almenningur sé vel upplýstur um þær mismunandi leiðir sem mögulegar eru, kosti þeirra og galla. Því er mikilvægt sem fyrr segir að fram fari fagleg og fjölþætt úttekt á þeim kostum sem í stöðunni eru.

Vanda verður valið á rannsóknarteyminu sem vinnur úttektina. Fagfólk þarf að koma að úr mörgum áttum með mismunandi bakgrunn ólíkra fagsviða til að tryggja víðsýni og trúverðugleika á viðfangsefnið.

Trúverðug sýn í gjaldmiðilsmálum sem öðrum stórum samfélagsmálum verður að byggjast á fjölbreyttum sjónarhornum og grænum áherslum sjálfbærni og jafnaðar jafnt sem takmarkinu um atvinnu fyrir alla. Eðlilegt er að leita til erlends fagfólks jafnt sem innlendra aðila til að vinna slíka úttekt þar eð hætt er við að annars sé of mikil hliðsjón höfð af hagsmunaátökum líðandi stundar hér innan lands.

Í þeirri þvögu ólíkra sjónarmiða sem uppi eru um málið er úrslitaatriði að kostir og gallar séu metnir á faglegan og yfirvegaðan hátt og að vönduð ítarleg úttekt liggi fyrir, gerð af bæði innlendum og alþjóðlegum fagaðilum með fjölbreyttan bakgrunn, svo að það sé ítrekað, því að það er lykillinn að málinu. Slíkt er einnig lykillinn að upplýstri ákvörðun þings og þjóðar í svo afdrifaríku máli.

Ég legg svo til, frú forseti, að þessu máli verði vísað áfram til nefndar.