138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[14:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að ég vona að þessi tillaga fái skjótan og góðan framgang hér í þinginu og að þessi vinna verði hafin sem fyrst. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á og gera okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að haga stjórn peningamála okkar hér á næstunni. Engin þjóð getur náð árangri í hagstjórn og tryggt velmegun þegna sinna án þess að hafa stjórn á peningamálum þannig að þar sé sæmilegur stöðugleiki og að myntin endurspegli sæmilega stöðu efnahagslífsins á hverjum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar og hef margoft sagt það, bæði úr þessum ræðustól og á opinberum vettvangi, í blaðaskrifum og annars staðar, að sú peningamálastefna sem við fórum af stað með árið 2001 hafi þegar upp var staðið reynst röng. Hvað á ég við með því? Jú, ég tel að það hafi verið mistök að við ákváðum að setja verðbólgumarkmið sem eina markmiðið og síðan hvernig Seðlabankinn framfylgdi þeirri stefnu, að það hafi um margt verið mjög dýrkeypt mistök. Það er svo sem ekki við Seðlabankann einan að sakast því þetta var ráðandi skoðun í flestum seðlabönkum á Vesturlöndum, í hinum vestræna heimi, og menn töldu að þetta væri skynsamlegasta nálgunin á stjórn peningamála.

Það sem gerðist í litlu hagkerfi eins og okkar þegar Seðlabankinn hækkaði vexti sína langt umfram vaxtastigið hjá öðrum löndum til þess að draga úr þenslu, sem óumdeilanlega var hér í hagkerfinu á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007, var að þá myndaðist staða fyrir erlenda fjárfesta til að færa sína peninga frá lágvaxtasvæðunum hingað til Íslands tímabundið til að njóta hárra vaxta. Seðlabankinn stuðlaði þar með í raun og veru að lántöku Íslendinga erlendis með því að bjóða upp á svo háa vexti. Erlendu peningarnir streymdu inn í hagkerfið og við það styrktist gengi íslensku krónunnar. Þar með lækkaði verðlag á innfluttum varningi sem aftur hélt verðbólgunni í skefjum. Augljóst má vera, herra forseti, að þetta gat aldrei gengið upp vegna þess að í raun og veru vorum við að taka lán í útlöndum til að halda verðbólgunni niðri. Engin þjóð, hvorki þessi né önnur, getur varið sig gegn verðbólgu með lántöku, það má augljóst heita. Þess vegna liggur það fyrir okkur núna að móta grunn fyrir nýja stefnu í peningamálastjórnun. Hún þarf að byggja á krónunni næstu árin, alveg örugglega, því að sama hvað verður um ESB-aðildarumsókn er alveg ljóst að krónan verður hér í næstu framtíð. Við verðum ekki komin með evruna fyrr en eftir töluvert mörg ár, ef Ísland á annað borð velur þá leið að fara í ESB. Síðan geta menn líka rætt það, og það er efni í sérstaka umræðu, hver framtíð evrunnar er sem gjaldmiðils og hvort sú mynt hentar okkur Íslendingum eða ekki. Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa sagt að það sé nauðsynlegt að þjóðin fái að taka ákvörðun í því máli fyrr eða síðar og tel þess vegna mikilvægt að við klárum það ferli sem nú er í gangi þannig að þjóðin geti sagt af eða á í því máli.

Herra forseti. Þá kemur að þeirri spurningu sem ég byrjaði á áðan: Hver á að vera grunnur peningamálastefnu hér næstu árin? Þetta er stóra spurningin og það verður að segjast eins og er að við ræðum þetta stóra mál allt of sjaldan og allt of lítið. Þess vegna fagna ég þessari tillögu af því að hún getur lagt gott til málanna hvað þetta varðar. Eins og ég nefndi áðan er ég þeirrar skoðunar að dagar sjálfstæðrar peningamálastefnu, við þau skilyrði að það sé opinn flutningur á fjármagni á milli landa, sé liðinn fyrir land eins og Ísland. Það sem ég á við með því er að Seðlabankinn getur ekki, við þær aðstæður þar sem fjármagn getur farið á milli landa, haft vaxtastig sitt verulega frábrugðið því sem er í löndunum í kringum okkur. Það er bara ekki hægt. Ef vaxtastigið er miklu hærra, eins og var hér á síðustu árum, streyma inn peningar til þess að nýta vaxtamuninn og gengið verður kolvitlaust. Við höldum vissulega verðlaginu niðri, við búum til falskan kaupmátt og gröfum undan útflutningsatvinnuvegunum, við ýtum undir m.a. fjárfestingar Íslendinga erlendis af því að það borgar sig að skipta krónunni í erlenda mynt á svona hagstæðu gengi og við búum til falskan kaupmátt og falska neyslu. Það gengur því ekki að ætla sér að vera með miklu hærri vexti en þjóðirnar í kringum okkur.

Það gengur heldur ekki, herra forseti, að ætla sér að hafa vextina miklu lægri en í löndunum í kringum okkur. Ef það gerist munu peningarnir fara út úr hagkerfinu og við lendum í því að það verður peningaþurrð í landinu, hér verða ekki nægir peningar til að standa undir framleiðsluatvinnuvegunum. Þetta held ég að menn verði að skilja og átta sig á. Með öðrum orðum, það svigrúm sem Seðlabankinn hefur er miklu minna en áður fyrr og minna en menn töldu að væri frá og með árinu 2001 þegar ný lög um Seðlabanka Íslands voru sett. Þetta gerir þá kröfu á okkur að samþætting ríkisfjármála og fjármála sveitarfélaganna við peningamálastefnu Seðlabankans verður að vera miklu betri en verið hefur á undanförnum árum.

Taki menn þau fjárlög sem gerð voru árið 2007 fyrir fjárlagaárið 2008 og samþykkt voru hér í þinginu — minn flokkur bar þar ábyrgð ásamt þeim flokki sem þá var með okkur í ríkisstjórn, Samfylkingunni. Þegar menn horfa á útgjaldaaukninguna á þessu ári og síðan á það verkefni sem Seðlabankinn taldi sig standa frammi fyrir, og hækkaði vextina til þess að mæta því, sjá menn auðvitað að allt samstarf á milli stjórnar peningamála ríkisins, þ.e. ríkisfjármálanna annars vegar og hins vegar peningamálastjórnarinnar í Seðlabankanum, hafði brugðist gjörsamlega og fullkomlega. Þetta var bara alveg í sundur farið. Það verður því okkar verkefni að finna út hvernig við ætlum að samstilla þetta og með hvaða hætti við ætlum að gera það. Mörg flókin álitamál liggja þar undir og sum þeirra snúa meira að segja að spurningunni um framsal á valdi og lýðræði. Hversu mikið vald erum við til í að setja inn í Seðlabankann? Getum við framselt t.d. hluta af skattlagningarvaldinu o.s.frv.? Það kallar á breytingar á stjórnarskrá. Það eru þannig verkefni og þannig úrlausnarefni og þannig hugmyndir sem við þurfum að vera að fást við.

Síðan er hitt að sá vandi sem við erum í núna, þ.e. hvernig við ætlum að koma okkur út úr þessum gjaldeyrishöftum — það er alveg ljóst í mínum huga að það verður ekki gert nema menn hafi rökstudda trú á framleiðslugetu íslenska hagkerfisins. Allt tal um að menn ávinni sér betri stöðu með myntina með einhverjum „trikkum“, vil ég segja — og ég man nú umræðuna um hvað mundi gerast með stöðu íslensku krónunnar þegar talað var um breytingar á yfirstjórn Seðlabankans — er náttúrlega alveg furðuleg umræða. Það sem menn horfa á fyrst og síðast þegar menn meta gengi gjaldmiðla er framleiðslugetan þar á bak við, styrkur hagkerfisins. Ég held því fram að við verðum núna að keyra vaxtastigið niður mjög hratt, miklu hraðar en við höfum verið að gera, þó að það geti tímabundið kostað okkur að gengið gefi eftir. Sá kostnaður sem við verðum fyrir á þeirri hliðinni felst í því að það kemur verðbólguskot þessa vegna og það skerðir auðvitað lífskjör almennings en um leið og við náum vaxtastiginu niður lækkum við vaxtabyrði almennings en komum líka efnahagslífinu aftur af stað. Engin framleiðsla við þær aðstæður sem nú eru í heiminum stendur undir þessu vaxtastigi, hvað þá einhvers konar nýsköpun. Það er því ekki þannig að við getum ekki lækkað vextina fyrr en við erum búin að afnema höftin eða hvernig það nú er, við verðum að byrja á því að lækka vextina ef gengið gefur eftir. Ég held að það verði mjög tímabundið og stutt af því að um leið og við hleypum krafti í atvinnulífið og ráðumst í þær framkvæmdir sem hér hafa verið taldar upp, m.a. af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni varðandi orkufrekan iðnað og annað slíkt, um leið og við keyrum á þessa þætti með lágum vöxtum vinnum við okkur hratt út úr þessu. Ef við ætlum hins vegar að bíða og láta vaxtastigið malla svona áfram mánuðum og missirum saman munum við keyra hagkerfið meira og meira niður og þá verður það erfiðara með hverjum mánuðinum sem líður, herra forseti. Það er því ekki eftir neinu að bíða.

Stjórnmálamenn geta haft heilmikið um þetta að segja vegna þess að við höfum í hendi okkar hér á Alþingi vald til þess að breyta lögum um Seðlabankann, m.a. að breyta því markmiði sem bankinn hefur. Núna er markmiðið óbreytt frá því sem var árið 2001, verðbólgumarkmiðið hreint. (Forseti hringir.) Við getum ákveðið að breyta því og við ættum að skoða það mjög alvarlega.