138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það verða örugglega alltaf áhöld um það hversu vandað fjölmiðlafrumvarp getur verið. Það voru deilur um það, verða deilur og munu alltaf verða deilur um fjölmiðlamálin. Mér sýnist þetta vera mikið umleikis og greinilega mikil vinna lögð í þetta mál þó að skoðanir um innihaldið geti verið skiptar. Vinnubrögðin eru ágæt þó að innihaldið sé umdeilanlegt.

Margar spurningar koma upp. Ég vil byrja á þeirri pólitísku stefnumörkun sem mér finnst m.a. vanta í málið. Mér finnst þetta minna á mál sem byggir á tilskipun frá Evrópusambandinu. Þetta er mál sem byggir að hluta til á frumvarpinu sem við ræddum fyrir 2–3 árum en síðan vantar stóru hlutina í það. Þeir eru aðallega tveir að mínu mati. Annar er eignarhaldið á fjölmiðlunum og mér kemur ekki á óvart að akkúrat þessi ríkisstjórn skuli leggja fram fjölmiðlafrumvarp sem kveður ekki á um eignarhald á fjölmiðlum því að þetta eru sömu tveir flokkarnir og komu í veg fyrir að við settum hér rammalöggjöf um fjölmiðla og þar með talið eignarhald á sínum tíma. Þetta eru flokkarnir tveir sem gerðu það. Ég spyr: Af hverju að bíða með þetta? (Forseti hringir.) Af hverju var þetta ekki unnið?

Síðari spurning mín varðar auglýsingatakmörkun á Ríkisútvarpinu: (Forseti hringir.) Hefur það ekki verið rætt? Er möguleiki að hv. menntamálanefnd geti breytt þeim hluta frumvarpsins (Forseti hringir.) sem þar á meðal mundi hugsanlega takmarka auglýsingar Ríkisútvarpsins á markaði?