138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

álverið í Straumsvík.

[15:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Álverið í Straumsvík er í mörgu tilliti mjög mikilvægt fyrirtæki. Þar starfa hundruð manna og útflutningsverðmæti eru gríðarlega mikilvæg. Eitt af því sem horft hefur verið til í þeirri atvinnuuppbyggingu sem fram undan er, er að fara þar í straumhækkun sem mun hafa mjög jákvæðar afleiðingar í för með sér. Þetta mun þýða störf fyrir hundruð manna á uppbyggingartímanum, auk þess að skapa fjölda starfa til lengri tíma. Ekki síst mun þetta auka framleiðslugetu álversins um 40% með tilheyrandi aukningu á útflutningsverðmætum fyrir þjóðina.

Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því hver staðan er í samningaviðræðum við fyrirtækið varðandi þessa straumhækkun, sem er svo mikilvæg og hefur verið horft til og álverið hefur lýst sig reiðubúið til að fara í. Hver er staðan í þessum samningaviðræðum? Er eitthvað í veginum fyrir því að ganga frá samningum við þá um þessa mikilvægu framkvæmd?