138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir mestu máli á næstu mánuðum og missirum er að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað og hleypa lífi í atvinnulífið og þar gegna lífeyrissjóðirnir algjöru lykilhlutverki, sérstaklega þegar kemur að nýfjárfestingum í orkumálum, stærstu samgönguframkvæmdum og jafnvel uppbyggingu nýja spítalans, Landspítala.

Í aðgerðaáætlun Samtaka atvinnulífsins, „Atvinna fyrir alla“, sem kom út núna um daginn er fjallað nokkuð ítarlega um þessi mál. Þar er nefnt að á meðan lífeyrissjóðirnir í OECD-ríkjunum töpuðu um 23% af eignum sínum í fjármálakreppunni var tap íslensku sjóðanna um 19%. Hins vegar var hrein eign sjóðanna 1.794 milljarðar í árslok 2009 og hafði hækkað um ríflega 200 milljarða frá sama mánuði árið 2008, sem sagt um 12,8%. Það er gífurlega mikilvægt að þetta fé skili sér inn í skynsamlega endurreisn á atvinnulífi okkar og að því vinna stjórnvöld hörðum höndum. Meðal annars var stofnað til Framtakssjóðs Íslands til þess að vinna að þessum erindum þannig að lífeyrissjóðirnir gætu komið af fullum krafti inn í uppbyggingu í atvinnulífinu þar sem þeir munu gegna algjöru lykilhlutverki á næstu mánuðum og missirum.

Þess vegna voru það mikil vonbrigði að lesa í Fréttablaðinu í dag að Orkuveitu Reykjavíkur gangi illa að safna fjármunum frá lífeyrissjóðunum og skuldabréfaútboð fyrirtækisins á innlendum markaði hefur skilað innan við helmingi þessa fjár. Stórir lífeyrissjóðir á borð við Gildi – lífeyrissjóð, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, hafa ekki séð sér fært eða kosið að taka þátt í skuldabréfaútboði sem liggur því til grundvallar að Orkuveita Reykjavíkur geti fjármagnað framkvæmdir, t.d. til að skaffa orku til álversframkvæmda í Helguvík, gagnaversframkvæmda suður frá (Forseti hringir.) o.s.frv. Þess vegna skiptir miklu máli að komið sé af miklum krafti inn í málin varðandi lífeyrissjóðina, þannig að þeir komi að þessum uppbyggingaráformum eins og ætlað var.