138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

málefni banka og sparisjóða -- staða námsmanna -- atvinnumál og lífeyrissjóðir.

[14:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem komin er í þinginu um hin ýmsu mál. Sérstaklega varð ég var við að hér töluðu stjórnarþingmenn mikið um árangurstengd laun í bönkunum og vísuðu þá í fréttir af því að uppi væru hugmyndir um það í þeim bönkum sem eru núna í eigu einhverra sem við vitum ekki alveg hverjir eru. Ég vakti athygli á því og ég hef beðið um fund í hv. viðskiptanefnd til að við byrjum í það minnsta að skoða árangurstengda launakerfið sem er hjá ríkisbankanum. Það var sérstaklega samið um þetta árangurstengda launakerfi af fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Er það ekki ágætisbyrjun og er ekki góð samstaða meðal þingmanna allra flokka um að við byrjum á því? Hæstv. fjármálaráðherra samdi sérstaklega um að það yrði árangurstengt launakerfi í ríkisbankanum. Áður en við gerum reglur og bragarbót á því sem gerist annars staðar held ég að það hljóti að vera þverpólitísk samstaða um að byrja á því að snúa okkur að ríkisbankanum. Ég efast ekki um að hv. formaður viðskiptanefndar muni tilkynna hratt og vel hvenær verður fundað um þetta ásamt því að við ætlum að upplýsa um það hverjir eiga bankana. En við höfum sömuleiðis beðið um að farið yrði yfir það. Við gerðum það í janúar en það hefur ekki gerst neitt í því, þ.e. það hefur ekki verið upplýst.

Síðan vek ég athygli á ágætri umræðu sem hér varð um sparisjóðina í upphafi þingfundar. Ég held að það sé ágætt að menn hafi í huga að við áttum að taka þessa umræðu í fyrrasumar, fyrir nokkurn veginn ári. (Gripið fram í.) Það er það sem við sjálfstæðismenn vildum gera þá. (Forseti hringir.) Frumvarp var keyrt í gegn á ofurhraða sökum þess að ef það yrði ekki gert mundi allt fara í voða í sparisjóðakerfinu. Síðan hefur ekkert gerst. (Forseti hringir.) Látum þetta verða víti til varnaðar. Vöndum okkur betur næst.