138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

309. mál
[15:54]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Þessi lög eiga að taka til þess þegar meta þarf hvort einstaklingur, sem hefur hug á starfa hér á landi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, uppfyllir skilyrði til að starfa í starfsgrein, sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu stjórnvalds, á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi.

Lög þessi gilda enn fremur þegar tilkynna skal um þjónustu sem veitt er hér á landi tímabundið eða með hléum og háð er leyfi, löggildingu eða annarri jafngildri viðurkenningu stjórnvalds.

Hér er verið að fjalla um einstaklinga sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða í landi þar sem samið hefur verið um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda, þá sem eiga rétt á að gegna hér á landi starfi, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara, enda uppfylli þeir skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins um viðurkenningu á faglegri menntun eða í samningum sem ríkisstjórnir Norðurlanda gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar, og síðan Hoyvíkur-samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.

Þeir einstaklingur sem falla undir tilskipunina eða samninga og óska eftir því að starfa hér á landi eiga að beina umsókn sinni til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, nema öðru stjórnvaldi sé með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum falin úrlausn málsins.

Einstaklingur sem ekki fellur undir tilskipunina eða samningana skal beina umsókn sinni til mennta- og menningarmálaráðuneytisins nema öðru stjórnvaldi sé með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum falin úrlausn málsins.

Það stjórnvald sem veitir leyfi, löggildingu eða viðurkenningu kannar hvort skilyrði tilskipunarinnar eða samninga sem um starfið gilda að öðru leyti séu uppfyllt.

Einstaklingur sem óskar eftir því að gegna hér starfi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, tímabundið eða með hléum, skal áður senda hlutaðeigandi stjórnvaldi skriflega tilkynningu um fyrirætlan sína.

Einstaklingur sem fellur undir þessi skilyrði tilskipunarinnar á rétt á að veita hér á landi þjónustu tímabundið eða með hléum ef hann hefur lögfesta búsetu í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, hefur unnið við starfið í að minnsta kosti tvö ár á síðastliðnum tíu árum áður en þjónustan er veitt og það var ekki lögverndað í því ríki. Skilyrði um tveggja ára starfsreynslu gildir ekki þegar annaðhvort starfsgreinin eða menntun til starfsins er háð leyfi, löggildingu eða viðurkenningu stjórnvalds.

Sá sem óskar síðan eftir því að veita þessa þjónustu hér á landi í fyrsta sinn skal áður en hún hefst gefa skriflega yfirlýsingu til hlutaðeigandi stjórnvalds, þar sem m.a. er getið þeirra vátrygginga sem hann nýtur. Hlutaðeigandi stjórnvald getur krafist ákveðinna yfirlýsinga, svo sem sönnunar fyrir þjóðerni, vottorðs um að umsækjandi sé með lögfesta búsetu í aðildarríki, prófskírteinis og sönnunar þess að starfið hafi verið stundað í að minnsta kosti tvö ár, og síðan hreins sakavottorðs alla vega þegar um störf í öryggisþjónustu er að ræða.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, svo og stjórnvöld sem í hlut eiga, geta krafið umsækjanda um upplýsingar sem þörf er á til að taka megi afstöðu til umsóknar um heimild til að gegna starfi hér á landi, eða veita þjónustu tímabundið eða með hléum. Með sama hætti má afla upplýsinga frá lögbærum yfirvöldum þess ríkis þar sem réttinda er aflað eða þar sem hlutaðeigandi hefur starfað eða rekið starfsemi sína um staðfestingu á því hvort hann hafi aflað sér tilskilinna réttinda eða hafi sætt viðurlögum eða réttindamissi.

Kveðið er á um það í frumvarpinu að íslensk stjórnvöld skulu eiga samstarf við stjórnvöld þeirra ríkja sem fara með framkvæmd tilskipunarinnar, þar á meðal um miðlun upplýsinga, og haft geta áhrif á rétt til þess að stunda starf sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu.

Síðan eru í frumvarpinu ákveðnar heimildir til setningar stjórnvaldsfyrirmæla um gjaldtöku þannig að ráðherra sem í hlut á getur með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum er varða ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum ef það er nauðsynlegt og sá ráðherra sem í hlut á setur síðan reglur um hæfnispróf eða viðbótarmenntun eftir því sem við á. Hann getur einnig ákveðið að umsækjandi skuli greiða þann kostnað sem hefst af þessu mati.

Með þessu frumvarpi er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Þessi tilskipun var hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007 og með þingsályktun 16. mars 2009 samþykkti Alþingi að heimila ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðunina fyrir Íslands hönd.

Með þessari tilskipun eru 15 fyrri tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis sameinaðar í eina. Eina háskólastéttin sem stendur nú utan þessa kerfis eru lögmenn. Réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður en vonast er til að framkvæmdin verði einfaldari og skilvirkari, m.a. með nýjum ákvæðum um veitingu þjónustu og um samskiptakerfi stjórnvalda er annast viðurkenningu. Öll meginskilyrði viðurkenningar og málsmeðferð er hin sama og áður og áfram liggur kerfinu til grundvallar sérstök skilgreining á menntunarstigum. Þau eru fimm og prófskírteini skilgreind samkvæmt því sem hér segir: Það eru skírteini vegna styttri námskeiða, framhaldsskólapróf og þrjú þrep háskólaprófa.

Þessi innleiðing tilskipunarinnar kallar aftur á móti á lagabreytingar hér á landi, sem hv. formaður hefur farið í þannig að ég er að hugsa um að láta það liggja á milli hluta. Ákvæði laganna taka einnig til viðurkenningar starfsréttinda sem kann að hafa verið samið um í samningum milli Norðurlandanna. Einnig er lagt til að ákvæði þess taki til starfsréttinda sem falla undir ákvæði Hoyvíkursamningsins sem var gerður milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.

Það eru ákveðin nýmæli í þessari tilskipun, m.a. ákvæði um frelsi í veitingu þjónustu. Þar segir í 5. gr. að aðildarríkjum sé óheimilt að hefta frjálsa veitingu þjónustu með vísan til prófskírteina þegar aðili uppfyllir viss skilyrði. Hér er átt við það þegar sá sem veitir þjónustuna fer milli aðildarríkja og staldrar við í stuttan tíma. Þegar aðili kemur inn í aðildarríki á grundvelli þessa ákvæðis fer ekki fram sama athugun á gögnum hans og þegar um búsetu er að ræða. Afgreiðslan má taka einn mánuð og ef aðili hefur ekki fengið nein svör getur hann gert ráð fyrir því að hann megi veita þessa þjónustu. En það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að þjónustuaðilar leggi fram ákveðin gögn, en til þess þarf að hafa verið kveðið sérstaklega á um það í lögum.

Samkvæmt 15. gr. þessarar tilskipunar geta fagsamtök innan Evrópu komið sér saman um svokölluð sameiginleg grunnskilyrði þar sem skilgreindar eru kröfur sem þarf að uppfylla til þess að aðilar geti öðlast viðurkenningu. Lögbær yfirvöld munu síðan koma sér upp nánara samstarfi um viðurkenningu þessara prófskírteina.

Aðildarríkin þurfa að skipa samráðsaðila fyrir tilskipunina, sem hefur svipað hlutverk og fyrri samráðsaðilar, en til þessa hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið gegnt því hlutverki. Hlutverk samráðsaðila er að stuðla að samræmdri framkvæmd tilskipunarinnar. Þá hafa aðildarríkin einnig þurft að koma sér upp tengilið í viðkomandi landi sem gegnir upplýsingaskyldu gagnvart þegnunum um viðurkenningu prófskírteina.

Frumvarpið er í raun og veru tvíþætt. Það er annars vegar rammalöggjöf og hins vegar er verið að innleiða ákvæði ákveðinnar tilskipunar þannig að ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins fá nú sjálfkrafa rétt til að starfa hér á landi með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara uppfylli þeir skilyrði tilskipunar eða viðkomandi samnings. Aftur á móti verður að gera kröfu um að það sem felst í viðkomandi starfsréttindum sé sambærilegt og ef í ljós kemur við yfirferð á gögnum að verulegur munur er á námi viðkomandi einstaklings, sem hann leggur til grundvallar viðkomandi starfsréttindum, er heimilt að láta viðkomandi gangast undir hæfnispróf. Ef um er að ræða ríkisborgara í ríki sem hvorki fellur undir gildissvið tilskipunarinnar né tilgreinda samninga er ekki um sjálfkrafa rétt að ræða og verður að meta formlega menntun og hæfi í hvert sinn.

Í 6. gr. frumvarpsins er mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem og hlutaðeigandi stjórnvöldum veitt heimild til að krefja umsækjanda, sem óskar eftir að starfa hér á landi eða veita þjónustu, um frekari upplýsingar svo hægt sé að taka afstöðu til umsóknarinnar.

Nefndin hefur lagt til tvær breytingartillögur. Önnur varðar það að lagt verði til að viðauki við prófskírteini, sé hann fyrir hendi, fylgi prófskírteinum en slíkt er til mikils hægðarauka því að þar kemur fram nánari lýsing á viðkomandi námi.

Nefndin telur að frumvarpið muni auka flæði milli markaða aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem er til bóta.