138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að taka þann málflutning alvarlega að nokkur hundruð tonna úthlutun eigi að rjúfa sátt í viðræðum um fiskveiðistjórnarkerfi og aflaúthlutanir á Íslandsmiðum til áratuga. Það er fjarri öllu lagi að slíkt smámál geti sett í uppnám tilraun manna til að ná sátt í hinu stóra máli og það lýsir því auðvitað bara að LÍÚ hefur aldrei haft neinn sáttavilja í þessu máli. (Gripið fram í.) Fyrst það braut á svona litlu var aldrei neinn vilji til staðar í upphafi. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður vakti athygli á því að frístundaveiðin á að greiða markaðsverð fyrir aflaheimildir sínar og að 120 krónurnar sem hér eru lagðar til eru sannarlega undir (Forseti hringir.) markaðsverði. Vill hann þá sjá það verð sem markaðsverð, var hann að kalla eftir því í ræðu sinni?