138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

skattlagning afskrifta.

[17:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég held að það sé ekkert verið að mistúlka. Hins vegar er verið að misskilja af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Ég var reyndar ekki svo bjartsýnn að halda því fram áðan, eins og hæstv. forsætisráðherra virtist telja, að hún væri búin að sjá kostina við almenna skuldaleiðréttingu. Ég fagnaði því hins vegar að hæstv. forsætisráðherra væri tilbúin til að skoða þetta núna ári eftir að útskýrðir voru kostirnir sem í þessu felast.

Ég skal reyna að útskýra hversu órökrétt er að ætla að skattleggja afskriftir við núverandi aðstæður. Hæstv. forsætisráðherra sagði sjálfur að afskriftirnar verði mismiklar eftir þörfum á hverjum stað og hjá einhverjum gæti jafnvel þurft að afskrifa 90 eða 100%. Gefum okkur nú að menn meti það sem svo í einhverju tilviki að það þurfi að afskrifa 90% vegna þess að viðkomandi geti ekki borgað nema 10%. Það að skattleggja þessa 90% afskrift þýðir að viðkomandi á þá að borga meira en metið var að hann gæti borgað.