138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins um skuldir heimilanna sem eru gríðarlega miklar eins og við þekkjum öll. Mörg þúsund heimili ná því miður ekki endum saman á milli mánaðamóta og margar fjölskyldur eru að ganga á áralangan sparnað sem nú fer þverrandi.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að leiðrétta þurfi með almennum aðgerðum skuldir íslenskra heimila sem eru þau skuldugustu í heiminum. Við höfum gert það í á annað ár. Það var þess vegna mikið fagnaðarefni í morgun að efnahags- og skattanefnd þingsins skyldi hafa farið af stað í þá vinnu, í fyrsta lagi að greina skuldastöðu íslenskra heimila sem er ekki öllum ljós og í öðru lagi að athuga hvert svigrúmið er innan bankanna til að mæta skuldugum heimilum með því að leiðrétta skuldir þeirra.

Þessi skoðun fer nú fram á vettvangi efnahags- og skattanefndar og ég vek athygli á því að nú hafa þingmenn náð samstöðu um að setjast yfir þetta verkefni sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir í á annað ár. Þetta er fagnaðarefni og ríkisstjórnin mætti taka þessi vinnubrögð sér til frekari eftirbreytni vegna þess að fréttir dagsins í dag um að aðilar vinnumarkaðarins ætli að segja upp stöðugleikasáttmálanum munu hafa veruleg áhrif á það uppbyggingarferli sem við viljum öll sjá fara fram hér á landi á næstu mánuðum. Helst þurfum við aðgerðir strax. Við þurfum að ná samstöðu á Alþingi um að leiðrétta skuldir heimilanna. Við þurfum samstöðu í íslensk stjórnmál til að ráðast að þessum stóru verkefnum og ég vona að þau vinnubrögð sem nú er verið að leiða í gegn á vettvangi efnahags- og skattanefndar séu það sem koma skal í anda samstöðu og samvinnu á vettvangi Alþingis. Því miður sýnist mér þó fátt benda til þess (Forseti hringir.) að þessi samstöðuandi nái inn á borð ríkisstjórnarinnar.