138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu. Það er ákaflega nauðsynlegt að fara í saumana á því hvernig á mögulega að afla orku fyrir 360.000 tonna álver, eins og um er rætt að byggja í Helguvík þótt leyfi hafi ekki verið fengið. Eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir rakti í framsöguræðu sinni fyrir þingsályktunartillögunni hafa sterk rök verið færð fyrir því að einfaldlega sé ekki til nægileg orka á suðvesturhorninu fyrir svo stórt álver. Jafnvel þótt það yrði minna yrði afskaplega lítið til, í öllu falli mjög lítið eftir af tiltækri orku á suðvesturhorninu.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum að fjalla hér um einhverja stærstu spurningu sem blasir við í íslensku samfélagi. Við höfum farið mjög geyst í orkunýtingu á undanförnum árum. Það hefur verið gagnrýnt. Margir hagfræðingar hafa talið orkunýtingarstefnuna sem birtist í t.d. mjög stóru álveri fyrir austan hafa leitt til þenslu sem síðan leiddi til hrunsins. Þetta eru stórar spurningar og við þurfum að vera fólk til að takast á við þær.

Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið gott að skjóta frekari stoðum undir efnahagslífið á sínum tíma með því að fara út í uppbyggingu á stóriðju. Allir flokkar, a.m.k. fjórflokkurinn ef ég má kalla hann svo, hafa tekið þátt í þeirri uppbyggingu, bæði í Straumsvík og Grundartanga. R-listinn stóð á sínum tíma að orkusölu til Grundartanga. Þrír flokkar á Alþingi studdu stóriðjuna fyrir austan og framkvæmdina við Kárahnjúka. Nú er það Helguvík og það er beinlínis gert ráð fyrir þeirri framkvæmd í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar með beinum eða óbeinum hætti.

Spurningin sem allir flokkar á Alþingi þurfa auðvitað að takast á við er þessi: Ætlum við að verja allri tiltækri orku á Íslandi í náinni framtíð til jafnvel eins eða tveggja stórra orkukaupenda sem eru í sama iðnaði og stærstu orkukaupendur á Íslandi eru í fyrir? Ætlum við í rauninni að verja nánast allri orku sem við seljum annað en til heimilanna til þriggja stórra orkukaupenda? Þetta mundi ég kalla að setja öll eggin í sömu körfuna.

Við erum að tala um þungaiðnað, álverin. Við erum að tala um einhvern orkufrekasta iðnað sem til er, iðnað sem þar að auki hefur mjög sterka tilhneigingu til að stækka. Ég vek athygli á því að mjög margir í samfélaginu, líka þeir sem ekki hafa gagnrýnt álversuppbyggingu undanfarinna ára, eru reiðubúnir að segja: Setjum stopp hér. Höfum þessi álver sem við höfum byggt og beinum núna sjónum okkar í aðrar áttir. Við erum komin á þann punkt að við verðum að átta okkur á því að þó að við eigum orku er hún ekki endalaus, hún er takmörkuð. Nú þurfum við að ákveða hvernig við ætlum að nýta hana.

Þetta er risastór, pólitísk spurning. Það er oft gert lítið úr þeim í umræðunni sem tala um „eitthvað annað“. Ég held því aftur á móti fram að aldrei náist sátt um að nýta þá orku sem eftir er nema við förum í saumana á því hvernig við getum nýtt þetta „eitthvað annað“ til þess að fá mun hærra verð fyrir þessa orku og til að skapa fleiri störf.

Nú ætla ég að útlista hvað ég á við með „eitthvað annað“. Það er hægt að nýta orkuna sem við eigum eftir á næstu árum — það getur vel verið að tækniframfarir geri það síðan að verkum að við munum eiga mun meiri orku en við vitum það ekki — til sílikonframleiðslu. Við getum nýtt hana til uppbyggingar gagnavera um allt land. Við getum nýtt hana til að framleiða sólarkísil, liþíum, sem nýtist m.a. í framleiðslu á batteríum fyrir rafbíla. Við getum nýtt hana í framleiðslu á koltrefjum. Við getum nýtt orkuna til að framleiða lífrænt eldsneyti, metan o.fl., sem nýtist til gjaldeyrissparnaðar á innlendum vettvangi. Hugmyndir hafa verið uppi um risagróðurhús til stórframleiðslu á grænmeti. Við getum nýtt orkuna í það og rafbílaframleiðslu.

Mig langar að taka eitt dæmi, bera saman álver og koltrefjaverksmiðju. Ef við verjum 10 megavöttum til koltrefjaverksmiðju, sem er innan við hálfur Urriðafoss í orkueiningum talið, er það fjárfesting upp á kannski 60 millj. dollara og við sköpum vinnu fyrir 60 manns ef vel tekst til. Álver er fyrir sambærileg 10 megavött með fjárfestingu upp á 24 millj. dollara og vinnuaflið er kannski sjö manns fyrir þau 10 megavött. Við getum í rauninni hugsað þetta í Urriðafossi. Margir bera miklar tilfinningar til hans. Kannski er það til þess fallið að skapa meiri sátt um virkjun Urriðafoss ef við setjum dæmið fram svona: Þar er 25 megavatta virkjun sem er um 4% af heildarorkuþörf álvers í Helguvík. Það eru kannski 22 störf í álveri en koltrefjaverksmiðja af þessari stærðargráðu væri mun stærri fjárfesting og skapaði hugsanlega um 150 störf. Ef við viljum fara út í reikningsdæmi verðum við að skoða hvernig við nýtum orkuna best.

Við tölum um skynsamlega nýtingu orku og skulum einmitt taka þessa umræðu, fara í reikningsdæmið. Tilfellið er að álver er orkufrekasti iðnaðurinn og skapar einna fæst störf miðað við hverja seljanlega orkueiningu. Þetta er stærð málsins. Við erum þess vegna, segi ég, búin að byggja upp nóg af svona orkufrekum iðnaði sem gefur þetta af sér. Núna er stóra pólitíska verkefnið að búa til kerfi á Íslandi, orkusölukerfi og orkusölustefnu, sem gerir okkur kleift að nýta þótt ekki væru nema 400 megavött, svo ég tali nú ekki um 500, til að skapa mun fleiri störf en í áliðnaði í öllum þeim fjölbreyttu tegundum iðnaðar sem ég hef talið hér upp. Það er líka til þess fallið að mynda sátt um orkusöluna á Íslandi.

Ef við höldum áfram á glórulausan hátt í átt að frekari uppbyggingu áliðnaðar verður ekkert eftir. Það er staðreyndin sem blasir við. Við verðum að fara að vakna. Við skulum mynda sátt á Íslandi um þau álver sem fyrir eru, við skulum hlúa að þeim, við skulum fagna þeim störfum, en við skulum jafnframt nýta það sem eftir er af hinni grænu, ótrúlega verðmætu orku sem Íslendingar eiga til að byggja upp fjölbreyttan iðnað sem dregur mun meiri fjárfestingu inn í landið og skapar mun fleiri störf fyrir íslenskt samfélag. Það er leiðin til sáttar.

Ég fagna þessari tillögu. Hún er sniðin í þá átt að við reynum að snúa þessu olíuskipi sem Ísland er í þessu tilviki, reynum að breyta stefnunni. Þetta er ansi stórt vandamál vegna þess að auðvitað höfum við búið okkur til á Íslandi orkusölustefnu sem er sniðin að þörfum stórkaupenda, sniðin að þörfum álvera, stóriðju, vegna þess að við förum ekki í virkjanir öðruvísi en að hafa kaupanda til 20 ára eða eitthvað svoleiðis. Þetta gerir það að verkum — og þessar áhyggjur heyrir maður úr nýsköpunariðnaðinum, frá Fjárfestingarstofu og víðar — að við höfum ekki orkusölustefnu sem hlúir að millistórum fyrirtækjum, að smáum fyrirtækjum jafnvel, sem þegar á heildina er litið og þegar öllu er á botninn hvolft skapa mun fleiri störf og mun meiri arð fyrir þjóðarbúið.