138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

úthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni.

[10:59]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og þetta er mjög mikilvægt mál. Við þurfum að kveða mjög skýrt að orði í þessu máli. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að gera upp á milli fólks eftir uppruna. Það er ekki þannig að útlendingar séu sérstakt vandamál í þeirri kreppu sem nú gengur yfir og það er mjög mikilvægt að við kveðum skýrt að orði í því efni. Það eru ekki útlendingar sem eru hér til vandræða, það eru ekki útlendingar sem þiggja framfærslu að ófyrirsynju, þvert á móti komu þeir útlendingar sem hingað hafa flust til að vinna störf sem kallað var eftir að þeir sinntu. Þeir hafa sinnt þeim, þeir hafa greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð af launum sínum og eru fulltryggðir, þeir eiga rétt á því að fá hér framfærslu og þjónustu í íslensku samfélagi enda hafa þeir lagt sitt af mörkum til þess.

Nettóframlög útlendinga til íslensks samfélags hafa árum og áratugum saman verið miklu meiri en nettóútgjöld vegna þeirra. Það er mjög mikilvægt að hafa líka í huga að hér voru 17.000 útlendingar á íslenskum vinnumarkaði árið 2007. Og jafnvel þó að atvinnuleysið hafi komið verst niður á þeim hópum þar sem útlendingar voru hlutfallslega fjölmennastir, eins og í byggingariðnaði, er samt atvinnuleysi meðal útlendinga einungis lítið eitt hærra en meðal Íslendinga, sem sýnir betur en nokkuð annað að þetta er ekki vandamál.

Þess vegna finnst mér mjög varhugavert og algjörlega óásættanlegt að byrja með einhverja flokkunarstarfsemi milli útlendinga og Íslendinga þegar um er að ræða aðstoð sem er grundvallarréttur fólks, að það fái framfærslu þegar það þarf á að halda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta getur ekki gengið og má ekki líðast.