138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[16:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vilja byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög yfirgripsmikla og góða ræðu, jafnvel um tillögu Framsóknarflokksins í allt öðrum málum.

Hv. þingmaður treystir embættismönnum til þess að framkvæma lögin á sanngjarnan og mildan hátt. Það skiptir um fólk í öllum greinum og þá vill hv. þingmaður leiðrétta það eftir á. Ég minni á að þingmenn í breska þinginu samþykktu lög til þess að berjast gegn hryðjuverkamönnum. Ég er nærri viss um að þeim hefði aldrei dottið í hug að þeim lögum yrði beint gegn banka norður í hafi sem heitir Landsbankinn hjá einhverju pínulitlu landi. Þá hefði ekki einu sinni rennt í grun að þeim lögum yrði beitt á þann hátt og það stóð örugglega ekki til. Samt gerðist það og það verður ekki aftur tekið, þessi aðgerð rústaði öllum bönkunum á Íslandi, þessi lög sem voru væntanlega sett í góðri meiningu að ná til al Kaída og annarra slíkra sem stunda hryðjuverkastarfsemi en voru notuð á þennan hátt. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það ekki dálítið mikið traust sem hann ber til ókominna embættismanna þegar þeir fá svona miklar heimildir í hendur?

Ég minni líka á það að mccarthy-isminn í Bandaríkjunum, sem beindist mikið gegn vinstri mönnum, byggði á því sama. Það voru lög sem voru notuð í annarlegum skilningi og það eru flestir á þeirri skoðun að það hafi ekki verið góð stjórnsýsla eða góð þróun sem átti sér stað varðandi mccarthy-ismann þar sem fjöldi manna flúði land þannig að ég held að löggjafinn verði dálítið að passa sig á því hvaða vopn hann setur embættismönnum í hendur.