138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna. Reyndar var hún dálítið mikið í fortíðinni eins og svo margar aðrar. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér, hvort það sé einhver sýn.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um lán bankanna sem gripu inn á verksvið Íbúðalánasjóðs, fóru í samkeppni við hann. Hann tengdi það ekki við að lánshæfismat bankanna var orðið svipað og ríkisins sem átti Íbúðalánasjóð, þannig að á þeim grundvelli gátu þeir fengið óheft fjármagn erlendis frá til þess að fara í samkeppni við Íbúðalánasjóðinn sem þeir hefðu ella ekki fengið.

Síðan er það einkavæðingin. Hv. þingmaður nefnir einkavæðinguna hina fyrri. Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann um einkavæðinguna hina síðari sem gerðist ekki fyrir löngu undir ríkisstjórn sem hann styður og hefur farið ósköp hljótt um. Þar voru ríkisfyrirtæki seld og ég er ekki að segja, frú forseti, að ég hafi verið á móti því. Mér fannst þetta afskaplega snjöll lausn enda lagði ég hana til víða. Það er ekki vitað hverjir eigendurnir eru og lítið hefur verið talað um þetta. Hv. þingmaður sagði: Það eru gerendurnir sem eiga að svara. Hefur ríkisstjórnin svarað því af hverju hún fór út í þessa einkavæðingu þar sem hún seldi ríkisfyrirtæki til kröfuhafa, t.d. hverjir eigendurnir eru? Nú hefur borist svar frá viðskiptaráðuneytinu, hygg ég, um hverjir séu eigendur og þeir leyfa sér að svara að það sé einkafyrirtæki sem þeir stofnuðu sem kröfuhafarnir eiga. Ekkert meir. Þeir leyfa sér að segja: Það er einn aðili sem á bankana og það er fyrirtæki sem þeir stofnuðu sjálfir en kröfuhafarnir eiga.