138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að mikilvægt sé að menn vandi vel til verka og fái ráðgjöf þegar stórir hlutir og framtíðarskuldbindingar af þessu tagi eiga í hlut. Það hefur verið gert. Þetta er langt frá því fyrsta og eina úttektin heldur kemur þessi síðasta norska ráðgjöf til viðbótar ýmsum áætlunum og skoðunum frá liðnum árum. Það sem ég tel sérstakan kost við þessa úttekt er að forsendurnar verða mjög raunsæjar og raunhæfar, umfang byggingarframkvæmdanna minnkar og farið er í átt til þess að nýta eldra húsnæði eftir því sem kostur er. Ég hygg að rýmið sem þarna kemur við sögu, þar eigi eftir að draga frá talsverðan hluta þess húsnæðis sem ekki mun verða hægt að nýta til frambúðar, þar á meðal væntanlega allan Fossvoginn og eitthvað af elsta og lélegasta húsnæðinu við Hringbrautina sjálfa, án þess ég þekki það nákvæmlega. En auðvitað má fara betur ofan í saumana á því.

Ég er algjörlega sannfærður um að það verður að fara að taka ákvörðun um framtíðarúrræði varðandi húsnæði fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús. Við getum ekki slegið því á frest. Sá kostur að gera ekki neitt er einfaldlega ekki í boði, hann er örugglega dýrastur og verstur í öllu tilliti. Spurningin er frekar sú hvort við erum hér komin með hófleg áform sem eru fullnægjandi, því það má hvorki ganga of langt né of skammt. Við megum heldur ekki tjalda um of til einnar nætur þegar við leggjum í viðamikla fjárfestingu til að koma mikilvægasta miðpunkti íslenskrar heilbrigðisþjónustu vel fyrir til framtíðar litið. Er það rétt ákvörðun að byggja á þessum forsendum við Hringbraut og tengja það við nýtingu á eldra húsnæði?

Þetta eru lykilspurningarnar í mínum huga og það er rétt og skylt að farið sé rækilega yfir þær. Það má segja að enn sé tími til stefnu þó að grunnákvörðunin hafi verið tekin. Ég fyrir mitt (Forseti hringir.) leyti er sannfærður um að niðurstaðan sem þarna stefnir í sé rétt, en það er rétt og skylt að hver og einn sannfæri sig í þeim efnum.