138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[18:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þeim skoðunum alveg með hv. þingmanni að við þurfum auðvitað að fara á hverju stigi þessa máls mjög vel yfir þær forsendur sem það byggir á, það hefur þar ýmislegt breyst. Eins og ég sagði í framsöguræðu eða svari hef ég fyrir mitt leyti reynt að setja mig ofan í þetta eftir því sem ég hef haft tök á, m.a. og ekki síst þessa endurskoðuðu áætlun norsku ráðgjafanna til að reyna að fá sannfæringu fyrir því að þetta væri vel grundað, að þetta væru raunhæf áform og þetta væri skynsamleg stefna. Ég vildi fyrir mitt leyti reyna að átta mig á því og glöggva mig á því áður en ég léði samþykki mitt við því að áfram yrði haldið.

Sömuleiðis er það þannig að við hljótum að áskilja okkur alltaf fyrirvara til þess að staldra við ef okkur sýnist í ljósi hönnunar sem fyrir liggur og nánari kostnaðarútreikninga að þetta sé eitthvað annað og stærra eða meira eða óvissan meiri en við erum að vonast til. Báðir aðilar hljóta auðvitað að áskilja sér þann rétt, líka fjármögnunaraðilarnir áður en þeir skrifa endanlega undir vegna þess að áhættan verður á þeirra herðum. Þannig er þessi framkvæmd hugsuð og það eru einu forsendurnar sem halda gagnvart því að færa skuldbindinguna ekki inn sem fjárfestingarhreyfingu heldur jafna henni yfir líftíma verkefnisins að þetta er fastur samningur, lokaður samningur, og ríkið er þannig lagað varið fyrir áhættu. Væri það ekki svo fengist aldrei viðurkennt að halda þessu utan við með þeim hætti sem gert verður. (Gripið fram í: Fjárhæðin og skuldbindingin.)

Fjárhæðin og skuldbindingin, þegar það liggur allt fyrir geta menn farið að gera það endanlega upp við sig hvort þeir skrifi undir þessa samninga. Stærðargráðan er sett hér inn að þetta sé um 50 milljarða verkefni í heild sinni, fjárfesting í byggingum upp á um 37 milljarða eða hvað það nú er í tækjum og búnaði og 11 milljarðar í endurbótum á eldra húsnæði, það er um það bil stærðargráða verkefnisins. Yrðu einhver veruleg frávik frá því sem Alþingi er kynnt í þeim efnum verður það mál að sjálfsögðu tekið upp og rætt. (Forseti hringir.) Það stendur ekki til að fara að skrifa undir eitthvað allt annað en hér er boðað að verði.