138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fullgilding mansalsbókunar við Palermó-samninginn.

526. mál
[18:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta mál kann við fyrstu sýn láta lítið yfir sér en það er eigi að síður ákaflega merkilegt. Þetta er tillaga þar sem leitað er heimildar Alþingis til fullgildingar á bókun sem er viðbót við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi en bókunin var samþykkt af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. nóvember árið 2000.

Til að unnt væri að staðfesta þessa bókun þurfti að breyta lögum. Hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra lagði fram frumvarp þessa efnis sem var samþykkt á Alþingi í desember sl. Samkvæmt því frumvarpi og samþykkt Alþingis var skilgreining á mansali í 227. gr. almennra hegningarlaga breytt til samræmis við skilgreininguna í þessari bókun.

Markmið bókunarinnar, sem margoft hefur verið til umræðu hér á hinu háa Alþingi, er að brúa bilið milli ólíkra réttarkerfa aðildarríkjanna til að auðveldara sé að samræma aðgerðir, rannsaka og sækja mál þvert á landamæri sem miða að því að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum barna og kvenna. Þetta mál eða staðfesting bókunarinnar skapar alþjóðlegan lagagrundvöll fyrir baráttunni gegn mansali. Eins og ég sagði áðan skilgreinir mansalsbókunin í þessu skyni hugtakið „mansal“. Jafnframt leggur hún til leiðir til að efla löggæslu, landamæraeftirlit, styrkja dómskerfið, auka við vernd og stuðning við fórnarlömb og vitni og koma á virkri forvarnastefnu.

Ég held, frú forseti, að það þurfi ekki lengur að sannfæra neinn um að mansal á Íslandi er staðreynd. Við töldum lengi vel að mansal væri partur af alþjóðlegri glæpaveröld sem ekki seildist alla leið hingað til okkar friðsæla lands en við höfum að undanförnu rækilega verið minnt á að svo er ekki.

Frá því fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram skýrslu um sérstaka áætlun um aðgerðir gegn mansali á síðasta löggjafarþingi hafa tvö mansalsmál verið tekin fyrir í dómskerfinu. Í dómi sem nýlega féll í Héraðsdómi Reykjaness er lýst með skelfilegum hætti hvernig glæpahópar á þessu sviði starfa. Þetta sýnir okkur fram á mikilvægi þess að gera ráðstafanir til þess að berjast gegn þessum hræðilegu glæpum. Mansal er misnotkun af verstu gerð. Mansal bitnar oftast á þeim sem engum vörnum geta komið við, einkum og sér í lagi konum og börnum. Mansali verður ekki líkt við annað en nútímaþrælasölu og í okkar heimshluta tengist hún oftast kynlífsþrælkun.

Frú forseti. Ég tel að það sé algjörlega nauðsynlegt að þessi tillaga verði samþykkt hið fyrsta og Ísland skipi sér þannig í hóp þeirra ríkja sem eru komin í framlínu í baráttunni gegn mansali. Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði þessu máli vísað til hv. utanríkismálanefndar.