138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[17:23]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilvísunin í „svo ná megi þeim markmiðum sem þar koma fram“ vísar til stöðugleikasáttmálans þar sem fjallað var um að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir tilteknum aðgerðum sem koma fram í yfirlýsingu fyrri ríkisstjórnar frá 17. febrúar 2008 þar sem veitt voru fyrirheit um þessi atriði. Hluti af stöðugleikasáttmálanum í júní var að verkalýðshreyfingin, aðilar vinnumarkaðarins og ríkið stilltu sig saman um tilteknar aðgerðir til þess að tryggja stöðugleika á erfiðum tímum. Meðal þess sem verkalýðshreyfingin féllst á var að gera ekki almennar kaupkröfur en vildi í staðinn fá í gegn ýmis réttindaákvæði. Þetta er eitt af þeim réttindaákvæðum. Það er vísað til samninga aðila vinnumarkaðarins og við höfum fyrir því áratuga athugasemdalausa og ég vil segja mjög árangursríka reynslu að vísa til samninga aðila vinnumarkaðarins sem lágmarkskjara á íslenskum vinnumarkaði. Það hefur gefist gríðarlega vel. Sú aðferðafræði hefur tryggt mikla aðlögunarhæfni íslensks vinnumarkaðar. Hún hefur unnið gegn atvinnuleysi vegna þess að hún hefur tryggt mikla aðlögunarhæfni markaðarins og það hefur gefið okkur mikið svigrúm til að takast á við mjög erfiðar aðstæður á vinnumarkaði eins og t.d. urðu hér á ofþensluárunum síðustu.

Ég held að það sé mikilvægt að við vinnum áfram á þeim grunni að við vísum til samninga aðila vinnumarkaðarins sem grundvallarviðmiðunar um lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði og þessi útfærsla er í þeim anda. Þessir sjóðir nýtast vel. Þeir nýtast núna sérstaklega í viðureigninni við atvinnuleysið, t.d. er verið að nýta þessa sjóði til að veita fólki, sem þarf á endurmenntun að halda og er í atvinnuleit, mikilsverða þjónustu og þannig má lengi telja.