138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2010.

542. mál
[20:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þeirri tillögu sem hæstv. forseti hefur upplýst þingið um að ég hyggst nú mæla fyrir um er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2010 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 9. og 22. mars síðastliðinn.

Þessi samningur, sem er gagnmerkur eins og fyrri samningar millum þessara tveggja þjóða um fiskveiðar, kveður á um það að allar heimildir landanna til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2010 verði óbreyttar frá því í fyrra. Færeysk skip fá samkvæmt þessum samningi heimild til þess að veiða 30 þúsund lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á loðnuvertíðinni 2010/2011 eða minna, eftir því hver leyfilegur heildarafli verður. Færeyskum skipum er auk þess heimilt að veiða allt að 10 þúsund lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu úr veiðiheimildum sem eru fengnar með samningum færeyska og grænlenskra stjórnvalda.

Samningurinn gerir líka ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á þessu ári.

Að lokum gerir samningurinn ráð fyrir því að íslenskum skipum séu heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld, þó annarri en norsk-íslenskri, innan færeyskrar lögsögu á þessu ári.

Rétt er líka, frú forseti, að taka það fram að áður en þessi samningur var gerður var, á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands, búið að ákveða að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á þessu ári. Heildarafli þorsks verður þó aldrei meiri en 1.200 lestir og lúðuafli aldrei meiri en 40 lestir.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu slotar verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.