138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég sá þetta frumvarp sem er eitt af mörgum frumvörpum sem fer núna inn í hv. viðskiptanefnd voru mín fyrstu viðbrögð: Fyrst núna? Það eru eitt og hálft ár síðan bankahrunið varð. Við erum búin að ræða um að slá skjaldborg um heimilin og núna kemur frumvarp um að kanna skuldastöðu einstaklinga. Það vekur nokkra athygli að það kemur frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hins vegar flutti hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra frumvarp um skuldamál fyrirtækja. Þetta er orðið nokkuð öfugsnúið þegar málefni einstaklinga eru komin í efnahags- og viðskiptaráðuneytið en málefni fyrirtækjanna í félags- og tryggingamálaráðuneytið. En það er margt sem er svolítið sérstakt núna á hinu háa Alþingi.

Síðan fór ég aðeins að skoða málið, virðulegi forseti, og ég held að við ættum að skoða þetta mjög vel. Ég vil vekja athygli þingmanna á því hverju er verið að safna saman á einn stað, með leyfi forseta:

„1. Frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum og Lánasjóði íslenskra námsmanna: Upplýsingar um fjárhæðir, innborganir, kjör, stöðu og tryggingar þeirra lána sem þeir hafa veitt einstaklingum.

2. Frá ríkisskattstjóra: Upplýsingar um tekjur og eignir einstaklinga sem talið hafa fram til skatts hér á landi.

3. Frá Vinnumálastofnun: Upplýsingar um umsóknir og skráningar einstaklinga á atvinnuleysisskrá, um starfshlutfall hvers umsækjanda og um fjárhæðir og hlutfall greiddra atvinnuleysisbóta til hvers umsækjanda.

4. Frá Þjóðskrá: Fjölskyldunúmer einstaklinga með íslenskar kennitölur, auk upplýsinga um kyn þeirra, hvort þeir hafi íslenskt eða erlent ríkisfang og búsetu hér á landi.

5. Frá Fjársýslu ríkisins: Upplýsingar um útgreiðslur barnabóta til framfærenda barna og um útgreiðslur vaxtabóta.

6. Frá Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Akureyrarkaupstað, Reykjanesbæ, Garðabæ, Mosfellsbæ, sveitarfélaginu Árborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga: Upplýsingar um greiddar húsaleigubætur, veitta fjárhagsaðstoð og aðrar bótagreiðslur til einstaklinga.

7. Frá Tryggingastofnun ríkisins: Upplýsingar um útgreiðslur bóta til einstaklinga.“

Svo segir, virðulegi forseti:

„Þær upplýsingar sem safnað er samkvæmt grein þessari mega ekki innihalda önnur persónuauðkenni en kennitölur, fjölskyldunúmer, kyn, íslenskt eða erlent ríkisfang og búsetu hér á landi.“

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvaða önnur persónuauðkenni eru skráð? Þegar maður fer yfir þetta og ef við ætlum að nálgast þetta með þeim hætti að setja eitthvað meira hérna inn, gætum við hugsanlega samkeyrt íþróttafélögin, félagaskrána, og svo kannski einhverjar myndavélar á heimilum til að loka hringnum algerlega, því að ég held að menn ætli bara að setja allar upplýsingar um einstaklinga hér inn.

Ég vek athygli á því að á bls. 5 í athugasemdum við 3. gr. segir, með leyfi forseta:

„Af sömu ástæðu er boðið að einu persónuauðkennum hinna skráðu sem koma fyrir í gögnunum verði umbreytt eða varpað í önnur auðkenni með aðferðum“ — og hér kemur setningin — „sem geri ólíklegt að utanaðkomandi geti síðar meir nýtt þau til að afhjúpa hin eiginlegu persónuauðkenni.“

Virðulegi forseti. Við erum að setja allt um einstaklingana þarna inn. Við getum hugsanlega keyrt saman gagnagrunn hjá deCODE sem aldrei var gerður og þá erum við líka komin með hverjir eru ættingjar viðkomandi og allar þær upplýsingar þarna. Við erum með alveg gríðarlega mikið magn. Þetta er draumur stóra bróður, það er bara allt þarna inni. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi áttað sig á þessu, hvað hér er um að ræða.

Hér segir í 5. gr., virðulegi forseti, um meðferð tölfræðilegra upplýsinga, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal kynna niðurstöður rannsóknar sinnar í ráðherranefnd um efnahagsmál sem tekur ákvörðun um hvernig bregðast skuli við þeim niðurstöðum og um birtingu þeirra opinberlega.“

Það er nefndin sem ákveður það hvort eigi að birta þetta opinberlega og hvað eigi að gera við þetta. Vissulega falla þessi lög úr gildi 1. maí 2013, en þurfum við þetta apparat, allar þessar upplýsingar sem er ólíklegt að utanaðkomandi aðilar geti nýtt sér, þurfum við allt þetta, þetta kostar 50 milljónir, til að takast á við fjárhagsvanda heimilanna? Auðvitað er mikilvægt að hafa góðar upplýsingar en þetta verður svakalegur upplýsingabanki um einstaklinga hér á landi. Menn í þessum sal höfðu miklar áhyggjur þegar farið var af stað með löggjöf um Íslenska erfðagreiningu á sínum tíma og það var út af persónuverndarástæðum. Það fór mikil umræða fram í þjóðfélaginu um það. Hér er, virðulegi forseti, eins og ég nefndi og ég veit að það var sagt í hálfkæringi þegar ég sagði að það ætti bara eftir að samkeyra félagaskrá íþróttafélaganna og setja myndavélar inn á heimilin til að loka þessu en það er samt í fullri alvöru ekki miklu meira sem við getum bætt þarna inn, hér er nákvæmlega allt. Ef eitthvað er að marka textann sem kemur fram í frumvarpinu virðist það ekki vera skothelt að hægt sé að misnota þetta. Þá er ég bara að vísa beint í athugasemdirnar á bls. 5, að það sé ólíklegt að utanaðkomandi aðilar geti síðar meir nýtt sér þessar upplýsingar til að greina þetta á persónur.

Ég er einn af fjölmörgum sem hefur fundist að við hefðum getað gengið mun hraðar og öruggar til verks þegar kemur að skuldavanda heimilanna. Svo sannarlega hefur einn vandinn verið sá að upplýsingar hafa komið mjög seint fram og ekki verið fullnægjandi. Ég get hins vegar ekki séð neitt annað en að það hafi verið verklag ríkisstjórnarinnar sem hefur ráðið því, ef þurft hefði að gera einhverjar undanþágur frá lögum hefði það mál auðvitað átt að vera komið fram fyrir löngu því að við vissum í október 2008 hver vandinn var. Svo var það bara spurningin hvað við ætluðum að gera til að reyna að lágmarka hann. En það er, virðulegi forseti, ekki öllu fórnandi í nafni þess góða málstaðar. Nú er það svo í okkar þjóðfélagi að vegna nútímatækni er mjög auðvelt að hafa gríðarlega mikið af upplýsingum um einstaklinga, koma þeim saman og safna þeim saman með tölvutækninni. Það er ástæða fyrir því að fólk hefur miklar áhyggjur af því og menn hafa farið varlega í það og reynt að gera aðilum erfitt fyrir að vera með slíkar upplýsingar á einum stað. En hér finnst mér eins og menn hafi fullkomlega ákveðið að henda öllum þeim sjónarmiðum burt. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er nauðsynlegt að hafa allar þessar upplýsingar þarna inni til að við getum tekið á vanda heimilanna? Vegna þess að þetta er þvílíkt samansafn af persónuupplýsingum á einum stað að mér er til efs að við höfum séð annað eins. Og upptalningin, þegar maður les þetta upp áttar maður sig kannski á því hve þetta er gríðarlega umfangsmikið.

Virðulegi forseti. Jafnvel þó að við værum með allar þessar upplýsingar munum við aldrei koma með þær lausnir á skuldavanda heimilanna að það leysi allan vanda eða til að ná hinni einu lausn sem er algerlega óumdeild. Það verður aldrei. En við getum setið upp með stórslys ef það gerist, sem er ekki lokað fyrir í frumvarpinu, að einhver misnoti þessar upplýsingar. Síðan skulum við ekki útiloka það að menn ákveði að lögin falli ekki úr gildi 2013, ég er eiginlega mest hræddur um það, og við séum hér með bankaupplýsingar um okkur öll sem einhver ríkisnefnd fer yfir og ákveður það og metur hvað hún á að gera við. Ég efast ekki um að menn geti alltaf fundið einhver rök fyrir því að hafa mikið af upplýsingum um fólk og örugglega leggja það allt upp sem góðan ásetning. En ég segi fyrir sjálfan mig að mér finnst það frekar óhugnanlegt að búa í slíku þjóðfélagi að ráðherranefnd hafi allar upplýsingar um mann. Ég er kannski einn í þessum sal sem hugsa þannig en mér finnst það ekki heillandi tilhugsun. En það er það sem við erum að búa til hér. Ég vildi því fá sjónarmið hæstv. ráðherra á þessar hugleiðingar mínar. Ég ætla ekki að halda ræðuna sem ég hélt áður að vesalings hv. viðskiptanefnd er ætlað að fá þessi skemmtilegu mál því að það er svo sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir þau, en við þurfum að hafa gott ráðrúm og tíma til að gera það vel og ég kvarta ekki undan að fá þetta verkefni, það er ekki svo. En fyrstu viðbrögð mín eru þau að við séum hér komin alveg á ystu nöf hvað varðar miðstýringu og hugmyndafræði stóra bróður sem við lásum öll um í George Orwell á sínum tíma og hugnaðist lítt. Ég vildi kannski heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um það hvort hann telji að hér hafi kannski verið gengið helst til langt í frumvarpsdrögum.