138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

skelrækt.

406. mál
[13:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í athugasemd hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar er náttúrlega gert ráð fyrir að atvinnugrein sem þessi verði rekstrarlega sjálfbær en hins vegar er mikilvægt að standa á bak við hana með þróunar- og rannsóknarstarfi til að hún komist yfir þann þröskuld sem ég vona að hún sé að hluta til samt komin ef eðlilegt lánsfjármagn er til staðar.

Með lagafrumvarpi því sem lagt hefur verið fram og verður vonandi afgreitt sem fyrst á þinginu er einmitt verið að leggja til það framtíðarskipulag sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gat um. Það er mikilvægur þáttur í þróun þessarar greinar frá upphafi að um hana sé skýr lagaumgjörð.

Um 8. gr. þessa frumvarps, sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði að umtalsefni, segir í athugasemdum:

„Hér er kveðið á um að áður en ræktunarleyfi eru gefin út sé skylt að framkvæma heilnæmiskönnun á tilraunasvæði.“ — Nú vitum við að kræklingar eru einmitt oft notaðir sem mælikvarði fyrir t.d. ýmsa málma, þeir eru mjög næmir fyrir ýmsum málmum sem þarna geta verið. — „Kanna þarf hvort svæði hentar til skeldýraræktar […] Fram kemur að heilnæmiskönnun skuli skipulögð og framkvæmd af Matvælastofnun í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur þar að lútandi. Þá er fjallað um að leyfishafi greiði kostnað við heilnæmiskönnunina en ráðherra er þó heimilt að ákveða að hann skuli greiddur úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef fjárheimildir fást til þess í fjárlögum.“ — Þarna er því sleginn varnagli í þá umræðu.

Ég tek undir orð hv. þingmanna að við bindum miklar vonir við skeldýraræktina (Forseti hringir.) og skeldýraeldið og ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að hafa vakið umræðu hér um málið.