138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:33]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Nú ættum við kannski loksins að fara að sjá fyrir endann á fjárhagslegri endurskipulagningu hins opinbera á fjármálafyrirtækjum, því að ríkið hefur nú fengið öll fjármálafyrirtæki landsins nema þrjú í fangið. Á meðal þeirra sem enn standa eru tveir smæstu sparisjóðirnir. En hvernig fjármálakerfi þurfum við? Hvernig banka og sparisjóðakerfi viljum við? Mér finnst eins og enginn hafi spurt þessara tveggja grundvallarspurninga, hvað þá svarað þeim. Við hefðum þurft að leyfa okkur að byrja með autt borð og byggja nýtt kerfi frá grunni, sníða fjármálakerfið að raunverulegum þörfum landsmanna en ekki bara þörfum kröfuhafa eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég held að fjármálakerfið sé enn allt of stórt og bankarnir eru of margir og allt of valdamiklir. Við lifum í græðgisþjóðfélagi þar sem vöxtur var dásamaður og hið stóra var sjálfkrafa talið betra en hið smáa. Hefðbundnir sparisjóðir sem byggðu starfsemi sína á vaxtamun voru álitnir gamaldags og úreltir og urðu olnbogabörn í samfélaginu.

Mér finnast sparisjóðirnir mikilvægir. Mér finnst mikilvægt að meginmarkmið endurreisnar þeirra verði að tryggja nærþjónustu, fjölbreytni í fjármálaþjónustu og þekkingu á atvinnulífinu á minni stöðum og í minni fyrirtækjum líka.

Ég heyrði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tala um fækkun sparisjóða og niðurskurð á yfirbyggingu þeirra. Sú fækkun má ekki bitna á þjónustu sparisjóðanna á landsbyggðinni.

Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem töluðu hér á undan mér um að margt er enn á huldu um endurreisn sparisjóðanna og framtíð þeirra. Eiga þeir að vera hlutafélög eða byggja starfsemi sína eingöngu á stofnfé eða hvort tveggja? Hvað eru eiginlega sparisjóðir? Hvernig getum við fengið fólkið í uppbyggingu þeirra á nýjan leik, þannig að þeir verði raunveruleg fjöldahreyfing stofnfjáreigenda? Það er frekar ólíklegt að þeir sem tóku kúlulán í erlendri mynt fyrir stofnfé, og sitja nú uppi með stóra skuld án nokkurrar innstæðu, séu tilbúnir í þann slag. Mér finnst einnig brýnt að gengið sé úr skugga um hvort fólk hafi vísvitandi verið blekkt til að taka þessi lán og það sé athugað af fullri alvöru hvort um saknæmt athæfi hafi verið að ræða. Og e.t.v. þarf að skoða fleira í sögu sparisjóðanna síðustu 15 árin.

Ég vil í lokin þakka þessa þörfu umræðu og vona að við getum sameinast um mikilvægi sparisjóðanna á þeirra eigin forsendum eins og þær voru upphaflega, forsendum samfélagsábyrgðar, forsendum natni og umhyggju fyrir nærsamfélaginu og með virðingu fyrir því smáa.