138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru býsna margir aðilar sem þarf að leita umsagnar hjá eða koma að þessum málum. Hv. þingmaður leggur til að bæta einum eða tveimur fleiri við en þarna eru upptaldir og nefndin bara skoðar það. Ég vil benda á það sem stendur í 6. gr.: „Áður en ákvörðun um slíkt bann er tekin getur ráðherra aflað umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Matvælastofnunar, Siglingastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.“ Það er alveg rétt að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga er hjá sveitarfélögunum en heilbrigðisþátturinn að öðru leyti er hjá Matvælastofnun. Það er alveg sjálfsagt og er held ég í lögunum sem voru samþykkt, matvælafrumvarpið, heimild til að framselja eða semja við aðra aðila, eins og t.d. sveitarfélögin, um skilgreinda þætti í því eftirliti. Að mínu mati er það bara einboðið að það taki líka til þeirra þátta sem hér eru eftir að gengið hefur verið rækilega úr skugga um að hægt sé að fylgja eftir þeim faglegu kröfum og öðru því sem nauðsynlegt er.

Sú upptalning sem er hér og hv. þingmaður getur líka lesið á bls. 7 í frumvarpinu, þar eru taldar upp hinar ýmsu og endalausu EES-reglugerðir sem þarf að uppfylla til að mega fara út í þessa atvinnugrein. (Gripið fram í: Ætlarðu að skjóta þér á bak við það?) Ég skýt mér ekki, það er Alþingi sem hefur samþykkt að þessum lögum og reglugerðum (Forseti hringir.) sé fylgt. En númer eitt er það, frú forseti, að lög um skeldýrarækt verði þannig að (Forseti hringir.) um hana verði gerð góð umgjörð. Ég held að málið snúist um það.