138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta var ágæt athugasemd hjá hv. þingmanni. Mig langar að byrja á því að taka undir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan, það er alveg ljóst að stjórnvöld þurfa að fara að hysja upp um sig ef eitthvað á að gera fyrir almenna skuldara í þessu landi. Það er ekki hægt að horfa upp á þetta lengur. Við erum líka með fréttir, virðulegi forseti. Hér er ég t.d. með frétt af vefnum skessuhorn.is þar sem fjallað hefur verið um langtímaatvinnuleysi sem er að aukast og festast í sessi. Þetta hangir að sjálfsögðu allt saman og stjórnvöld verða að fara að standa við stóru orðin sem hafa fokið úr þessum ræðustól, í fjölmiðlum, frá ráðherrum og eftir öðrum leiðum.

En það er annað sem mig langar að nefna, frú forseti, og það er frétt sem var í Ríkisútvarpinu með fyrirsögninni „Setið um kröfur í Glitni“. Þá er verið að tala um aðgang kröfuhafa að upplýsingum hver um annan og slíkt. Hér kemur fram að það séu um átta þúsund kröfuhafar í Glitni sem hafa þá aðgang að kröfubókinni. Alþingi getur ekki fengið þessar upplýsingar. Það eru einhverjir átta þúsund aðilar sem hafa aðgang að þessu en Alþingi getur ekki fengið aðgang. (Gripið fram í.) Það er alveg með ólíkindum. Alþingi ætti kannski að kaupa sér kröfu til að komast að þessum upplýsingum, hv. þingmaður. Þarf Alþingi hugsanlega að treysta á einhvern velviljaðan kröfuhafa, að hann hleypi Alþingi að þessum upplýsingum? Er sá velviljaði kröfuhafi hugsanlega orðinn lögbrjótur? Þurfum við ekki að taka málið til umfjöllunar, hæstv. forseti, og hreinlega þá að setja lög og breyta lögum til að Alþingi hafi aðgang að þessum upplýsingum? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)