138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:29]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir með hv. þingmanni að hjá atvinnuþróunarfélögum er ekki bara horft til fjármagnsins sem er til þar heldur líka sérfræðiþekkingarinnar og hana nýtum við okkur af miklu afli þessa dagana, enda víða ekki vanþörf á.

Til upprifjunar nefni ég að árið 2006 kom inn í þingið frumvarp um þessa sameiningu. Það voru ekki hugmyndir þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, heldur var beinlínis í frumvarpinu lagt til að leggja Byggðastofnun niður, þannig að því sé haldið til haga og menn geri ekki lítið úr því. Þó að ég viti að hv. þingmaður hafi síðar farið gegn málinu bar sú ríkisstjórn engu að síður fram þessa tillögu.

Það er eitt sem ég verð alltaf svolítið undrandi á. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að það væri snautlegt hvernig farið væri með sjávarútveginn í þessari byggðaáætlun, ástæðan væri sú að þarna væru eingöngu talin upp einhver, eins og hann vildi gera lítið úr þeim, lítilfjörleg verkefni á því sviði. Þá vil ég benda á að þessi byggðaáætlun, og líka ríkisstjórnin og iðnaðarráðuneytið, hefur fjölmarga sjóði á sínum vegum, þar á meðal Átak til atvinnusköpunar, vaxtarsamningana sem eru kjarninn og hjartað í þessari byggðaáætlun og Tækniþróunarsjóð, sem gera ekki greinarmun á atvinnuvegunum. Sjávarútvegurinn kemur mjög sterkur út úr þessum samkeppnissjóðum og vaxtarsamningunum. Það er því ekki hægt að segja að hlutur sjávarútvegsins sé snautlegur. Sjávarútvegurinn þarf ekkert á því að halda að vera dreginn sérstaklega út úr í sérverkefni vegna þess að hann stendur sig ljómandi vel og er gríðarlega sterkur í sókn í fjármuni út frá samkeppnislegu sjónarmiði, þ.e. millum atvinnugreina. Og iðnaðarráðuneytið styrkir mörg verkefni á sviði (Forseti hringir.) sjávarútvegs. Ég vildi að það kæmi hér fram þannig að menn héldu ekki að það þyrfti að taka hann sérstaklega fyrir. Hann plumar sig vel innan um aðrar atvinnugreinar.