138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:03]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið töluvert kallað eftir því að menn fái upplýsingar um það hvernig fjármunum til þessara verkefna er varið. Ég ætla þá að lesa upp hvernig skipting fjármunanna er raunverulega.

Í fyrsta lagi fara, eins og hér hefur verið nefnt, 215 milljónir af 318 í vaxtarsamninga á þessu ári. Þá fara 28 milljónir í fjölþjóðlegt samstarf, þessir fjármunir fara í Norðurslóðaáætlunina NORA en það samstarf hefur skilað okkur gríðarlega góðum árangri. Síðan fara á þessu ári 4 milljónir í eflingu þekkingarsetra, það mun vaxa upp í 10 milljónir á árinu 2012. Þá fara 45 milljónir í Impru hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Akureyri. Það fyrirkomulag erum við að endurskoða þannig að það verði hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands eins og ávallt hefur staðið til. Árlega munu 5 milljónir fara í Nýsköpunarsjóð framhaldsskólanema en við horfum til þess að efla áhuga og auka áhuga framhaldsskólanema á iðn- og verkmenntun í gegnum Nýsköpunarsjóð. Síðan fara 2 milljónir í nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu tengdri heilsu, lífsstíl, ráðstefnum og menningu, sem mun fara upp í 7 milljónir á árinu 2013. Þar er helst verið að horfa til heilsutengdrar ferðaþjónustu og það verkefni gengur vel. Síðan fara 15 milljónir á þessu ári í undirbúning landnýtingaráætlunar fyrir ferðaþjónustu á hálendinu sem er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni. Þá fara 2 milljónir í áætlun um útrýmingu kynbundins launamunar og 2 milljónir í menningu, skapandi greinar og listnám. Það liggur þá fyrir hér í umræðunni hvernig áætlað er að þessum fjármunum er skipt. Önnur verkefni munu koma (Forseti hringir.) af fjárlagaliðum ráðuneytisins.