138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það eru nokkur atriði sem ég vildi bregðast við strax vegna þess að ég held að það stytti umræðuna og geri hana líka upplýstari.

Fyrir það fyrsta vil ég andmæla því sem hv. þingmaður talaði um um flutning á ónotuðu fé milli ára. Það var sannarlega rétt að milli 2008 og 2009 áttum við í sjóði 4 milljarða kr., m.a. vegna þess að við gátum ekki verið að vinna ákveðið verk þá um haustið og veturinn vegna þess að það vetraði snemma. Dæmi: Mjóafjarðarbrú fyrir vestan. Þetta voru 4 milljarðar. Það tókst hins vegar að fá af því um það bil 1,8 milljarða til baka. Það var líka, milli síðustu áramóta, til óhreyft fé vegna þess að þá höfðum við meira úr að spila 2009 miðað við það sem ég var að segja, og við fengum að flytja það líka. Í vinnu minni og hæstv. fjármálaráðherra með fjármálaráðuneytinu tókst samkomulag um þetta. Ég hygg að við séum með um það bil 2,5–3 milljörðum meira úr að spila vegna þess að við fengum að flytja hluta af þessari fjárveitingu þarna á milli, ekki allt.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um Dýrafjarðargöngin þá er það rétt, við sátum í þeirri ríkisstjórn og þeim ríkisstjórnarmeirihluta sem samþykkti viðaukann. Það var þannig með Dýrafjarðargöngin í fyrsta skipti að þau voru sett inn árið 2009 með 100 millj. kr. sem var bara hönnunarfé. Árið 2010 voru þau sett inn með 900 millj. kr. og 900 millj. kr. í Dýrafjarðargöng var hálfs árs framkvæmd þannig að þetta hefði dugað til hálfs ár framkvæmdar. Nú ítreka ég það sem ég sagði áðan, hér hefur ekkert verið slegið af heldur dragast hlutir m.a. út af því að verk eru orðin margfalt dýrari. Ég sagði áðan: 66% hækkun á vísitölu vegagerðar frá 2007–2010, með öðrum orðum, verk sem hefði átt að kosta milljarð 2007 kosta 1.660 millj. í dag og við höfum ekki fengið þær 1.660 millj. kr. sem þarf til viðbótar sem viðbótarfé heldur verður að taka það af öðru. Það er þess vegna sem þetta dregst áfram ásamt miklum niðurskurði sem ég og hv. þingmaður hófum saman í ríkisstjórn eftir þá krísu sem landið lenti í í október 2008.