138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, svokallað strandveiðifrumvarp. Nefndarálitið er frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.

Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umr. Hefur nefndin fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmann sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Á fundi nefndarinnar var fjallað um þau skilyrði sem sett eru fyrir strandveiði, skiptingu landsins í landsvæði og heimild fiskiskipa til að hefja strandveiðar. Meiri hlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu er varðar skilyrði sem strandveiðin er háð. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ekki sé heimilt að stunda veiðar á föstudögum og laugardögum, samanber 1. tölulið 5. mgr. 1. gr. Það er álit meiri hlutans að fengnum ábendingum hagsmunaaðila og eftir umræðu innan nefndarinnar að einnig skuli banna veiðar á sunnudögum. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 1. gr. Í stað orðanna „föstudaga og laugardaga“ í 1. tölul. 5. mgr. komi: föstudaga, laugardaga og sunnudaga.

2. Við 2. gr. Á eftir orðinu „töluliður“ komi: er verður 1. töluliður.

Undir þetta nefndarálit skrifa Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, Margrét Pétursdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Róbert Marshall og Björn Valur Gíslason sem skrifar undir álitið með fyrirvara.