138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:33]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það var lítið tækifæri fyrir fólk, foreldra, sem upplifðu það að missa börnin sín til Breiðavíkur, að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er rétt að rifja það upp líka að margt var á almannavitorði. Það þótti allt í lagi að vegalaus börn sem áttu ekki sterka að og voru í flestum tilvikum á framfæri einstæðra mæðra eða annarra þeirra sem stóðu höllum fæti í samfélaginu, að virða mannréttindi þeirra að vettugi. Flest lá fyrir og það hefur margoft komið fram í opinberri umræðu á undanförnum áratugum ýmiss ávæningur af því hvað var að gerast í Breiðavík. Ég las ævisögu Sævars Ciesielskis sem kom út 1980, þar sem þessu var lýst en menn hlustuðu ekkert á fólk eins og hann. Það er auðvitað vanrækslusynd okkar að hlusta ekki. Það hefur blessunarlega margt lagast í barnaverndarmálum á þessum tíma. Auðvitað eru vinnubrögð barnaverndaryfirvalda allt önnur núna en þau voru þá. Eftir stendur að tiltrú skiptir miklu máli og hún skapast auðvitað með hlutlausu eftirliti – hún eykst við það og styrkist.

Það skiptir miklu máli að vanda vel til þessarar útfærslu. Ég hlakka til að hafa samráð og eiga samræður við félags- og tryggingamálanefnd þegar við verðum komin lengra með hönnun verkefnisins. Hugsun okkar með eftirlitsstofnun af þessum toga er ekki aðeins að hafa eftirlit með barnaverndarúrræðum, heldur kaupum á velferðarþjónustu. Vera í færum til þess að tryggja að allar ákvarðanir varðandi kaup á velferðarþjónustu séu teknar með faglegum hætti. Það er mikilvægt að koma því eftirliti á einn stað. Það eru fordæmi um þetta í nágrannalöndum okkar sem hafa tekist vel.