138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:14]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fatnaður þarf að vera öruggur, hagkvæmur og á skynsamlegu verði og það er hægt að stjórna því í samráði við samtök bifhjólamanna. Nú eru kröfur um að meira að segja í baksætinu sé þessi hlífðarfatnaður eins og fyrir geimferðir til Mars eða eitthvað slíkt og það er fulllangt gengið.

Önnur atriði. Einkamerkin? Hækka þau í 50 þús. kr.? Það er bara valdbeiting. Það var 25 þús. kr. síðasta gjald. Þegar það var sett á var það lægra. Það gilti í 10 ár, nú gildir það í 8 ár. Ef gefa á fólki færi á að njóta þessa réttar er miklu skynsamlegra að hafa þetta ódýrara. Það ganga það fleiri inn á það og það skapar meiri tekjur úr því að ríkisvaldið vill hafa af því tekjur. En 50 þús. kr. er okur.

Ég vil líka vara við þessum sektum eða sviptingum vegna ölvunarakstursins. Aukin harka í þessu mun ekki leiða til góðs. Hún mun ekki leiða til árangurs og það verður að taka á því í þeim efnum. Svo er alveg klárt að hægri beygjan á að koma strax.