138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við stöndum hér á Alþingi frammi fyrir stærsta verkefni í ríkisfjármálum í sögu íslenska lýðveldisins og það er ánægjulegt og fagnaðarefni að hæstv. fjármálaráðherra getur upplýst okkur um það að þær áætlanir sem lagðar voru niður um útgjöld ríkissjóðs hafi gengið vel eftir framan af árinu. Það er sérstakt fagnaðarefni vegna þess að það er sannarlega nýlunda, og fyrsta verkefnið sem við þurfum að taka á er viðvarandi agaleysi í framkvæmd fjárlaga sem hér hefur verið liðin ár eftir ár og áratug eftir áratug. Fyrst þarf að takast á við framúrkeyrslurnar við það að áætlunum og lögum sé ekki fylgt. Síðan er hægt að taka næstu skref, og það er ánægjulegt að heyra að þessi þáttur málsins gengur vel eftir.

Þetta gríðarstóra verkefni höfum við nú að hálfu lagt að baki, annars vegar með skattahækkunum og hins vegar með niðurskurði. Erfiðari helmingur leiðarinnar í því að minnka halla ríkissjóðs er þó eftir, vegna þess að búið er að taka bara auðveldustu ákvarðanirnar, að innleiða á ný gamla skatta sem höfðu verið lækkaðir, skera mesta kúfinn af útgjaldaaukningu síðustu ára. Á næsta ári og hinu þarnæsta mun fyrst reyna á okkur í þessum sal vegna þess að þá þurfum við að taka raunverulegar ákvarðanir um virkilega erfiðar aðgerðir í niðurskurði ríkisútgjalda vegna þess að það er, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur greint frá, nauðsynlegt að þunginn í aðhaldsaðgerðunum héðan í frá liggi niðurskurðarmegin því að það er búið að taka það út mest sem taka má út skattamegin.