138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef rætt þetta mál áður og sit í nefndinni sem um það hefur fjallað. Ég hef varað við því að menn eru að framselja löggjafarvaldið eða framkvæmdarvaldið til Samtaka atvinnulífsins og það er á tvennan hátt sem ég vara við því. Í fyrsta lagi er verið að stofnanagera eða ríkisvæða stéttarfélögin, ASÍ og SA, Samtök atvinnulífsins, með því að fela þeim verkefni sem í reynd eru verkefni ríkisins og afhenda þeim völd sem yfirleitt eru eingöngu veitt aðilum ríkisins. Það er sem sagt talað um að þeir geti úrskurðað hverjir eigi að bera þessi vinnustaðaskírteini, hvaða stéttir það verða, og þar með er búið að framselja löggjafarvaldið, sem ríkið hefur, til aðila sem standa utan við ríkiskerfið. Þeim er líka heimilað að kveðja til lögreglu til að framfylgja eftirliti sínu, sem er afskaplega óvenjulegt, frú forseti, þannig að það er mjög margt í þessu. Ég hef nefnt það áður og ætla ekki að fara að endurtaka það allt saman.

Eftir því sem ég hugleiði það betur tel ég að þetta gangi ekki upp. Það gengur ekki upp að hafa þetta svona. Menn ganga allt of langt í því að framselja ríkisvaldið og ég tel að menn þurfi að finna á þessu aðra lausn. Það er þannig. Það að fela einhverjum samtökum úti í bæ vald, samtökum sem verða þá einhvers konar opinber samtök því að hvað gerist ef menn stofna nýtt verkalýðsfélag sem svo aftur myndar ný samtök verkalýðsfélaga — segjum að það myndist síðan fullt af nýjum verkalýðsfélögum og þau myndi samtök sem yrði þá ASÍ 2 eða eitthvað slíkt. Hvað ætla menn að gera með það? Hafa þeir sömu völd? Geta þeir skuldbundið hina til að bera vinnustaðaskírteini? Hvernig ætla menn að fara að því þegar þetta gerist?

Ég tel að með frumvarpinu sé enn frekar verið að negla niður þau félagasamtök sem starfa á Íslandi og að enn erfiðara verði að stofna ný stéttarfélög eða stofna ný samtök atvinnulífsins og þetta sé gróf atlaga að félagafrelsinu. Mannréttindadómstóllinn felldi þann dóm um daginn að iðnaðarmálagjaldið bryti mannréttindi og ég tel að með þessu frumvarp, eftir því sem ég hugleiði það betur, er á sama hátt verið að brjóta mannréttindi. Ég lýsi því yfir að ég er á móti frumvarpinu og mun greiða atkvæði gegn því við lokaafgreiðslu.