138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir að fá að veita þetta andsvar við ágætisræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Ég er ansi hugsi, eins og væntanlega stór hluti þjóðarinnar, yfir afstöðu VG í málinu frá upphafi. Það kom fram í máli hv. þingmanns að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þessu var haldið mjög á lofti í síðustu kosningabaráttu. Hins vegar er VG í ríkisstjórn sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Mig langar því að óska eftir svörum frá hv. þingmanni: Hvaða umboð hefur utanríkisráðherra að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Er það að fara í eins konar könnunarviðræður, eins og var rætt um í sumar af mörgum hv. þingmönnum Vinstri grænna, og kanna hvort það sé dálítið lekkert að vera í Evrópusambandinu og labba svo út ef svo væri ekki? Það er að mínu viti eins og að gera bjölluat og er ekki gott til afspurnar og ekki gott fyrir orðspor Íslands.