138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og vil taka undir margt af því sem hann kom inn á þegar hann ræddi um norðurslóðamál o.fl. Hann kom einnig inn á ályktun sem samþykkt var á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fjallaði um Evrópusambandsaðild og sneri að því að þjóðin skyldi að lokum segja sitt svar um hana. Vegna þess langar mig að lesa upp úr gögnum sem liggja fyrir frá utanríkisráðuneytinu, og eru staðfest í skýrslu utanríkisráðherra, með leyfi frú forseta:

„Breyting hefur orðið á fyrri stækkunarviðræðum ríkja sem nú eru komin inn í ESB til þeirra sem standa yfir. Í þessu felst að sem minnst er gefið eftir af frestum til að uppfylla skilyrði áður en samningagögnum er lokað, heldur er markmiðið að framkvæmd innleiðingar löggjafar sé náð áður.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta samræmist stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um lýðræðislega aðkomu þjóðarinnar í málinu.