138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti mjög miklu máli í lífinu öllu og öllum störfum, hvort sem þau eru í stjórnmálum eða annars staðar, að geta skipt um skoðun. Að geta t.d. komist að því að þó að Varnarmálastofnun hafi verið stofnuð fyrir tveim árum síðan sé hægt að koma málum einhvern veginn öðruvísi og betur fyrir og breyta þeim þá. Það á ekki að halda alltaf í það að segja, „það má ekki gera þetta af því við gerðum eitthvað fyrir tveim árum.“ Nú liggur fyrir tillaga um að breyta þessu og ég sé ekki að í því atriði skipti nokkru einasta máli að Varnarmálastofnun hafi verið sett á fót fyrir tveim árum. Þar fyrir utan má benda á það, ef það hefur farið fram hjá hv. þingmanni, að við erum í efnahagserfiðleikum. Það þarf að skera niður fjárlög og ýmislegt mælir (Forseti hringir.) með því að gera hlutina á ódýrari hátt en áður.