138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar ef ég hef sagt að hæstv. utanríkisráðherra hafi talað um hraðferð vegna evrunnar. (Utanrrh.: Mogginn sagði það. ) Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar sögðu það hvarvetna fyrir kosningar. Ég var auðvitað ekki á kosningafundi með hæstv. utanríkisráðherra því að hann er ekki í mínu kjördæmi og ég hef ekki fylgst með hans kosningabaráttu en alls staðar var því haldið fram að við yrðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu til þess að fá evruna og það gæti tekið okkur í mesta lagi fjögur til fimm ár. Núna, eins og hæstv. utanríkisráðherra bendir réttilega á, er skuldastaða ríkissjóðs með þeim hætti að menn tala um að það geti liðið jafnvel 20–25 ár þar til við getum tekið upp evruna. Skýrsla frá fjármálaráðuneytinu sýnir það. Margir hafa haldið því fram núna, m.a. þeir sem hafa verið mjög fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið og þessu ferli öllu, að við munum ekki fá neinar undanþágur hvað varðar gjaldmiðilssamstarf eftir það sem á undan er gengið í Grikklandi og það sem hugsanlega er að fara í gang á Spáni, í Portúgal, Bretlandi og víðar. Þetta held ég því að sé algjörlega úr lausu lofti gripið.

Hvað varðar samningsmarkmið og samningsskilyrði Íslands hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort Evrópusambandið stýri alfarið þeirri vegferð sem þarna er í gangi og hvort ekki sé hægt að taka upp þau atriði sem koma fram í nefndarálitinu, setja þau sem hrein og klár samningsskilyrði, að frá þeim verði ekki vikið nema að undangenginni umræðu hér á Alþingi og ferlið fari ekki lengra nema það sé komið hreint og klárt svar hvað það snertir.

Síðan sakna ég þess að fá ekki fram sýn ráðherra á það sem viðkemur aðlögun að ESB en ekki aðildarviðræðum.