138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla eiginlega að fá að byrja á að svara síðustu spurningu hv. þm. Péturs H. Blöndals og þakka kærlega fyrir andsvarið.

Það er eitt af því sem ég mundi gjarnan vilja sjá á milli 2. og 3. umr. að við ræðum aðeins frumvarp hv. þingmanns um gagnsæ félög því að ég held að það geti verið áhugavert að skoða nákvæmlega það sem þingmaðurinn er að benda á, hvort við vitum hver er hinn raunverulegi eigandi að vátryggingafélagi nema við setjum einhvers konar skilyrði eins og kemur fram í frumvarpi þingmannsins.

Það skal viðurkennt að þegar nefndin var að vinna þetta mál og líka löggjöfina um fjármálafyrirtæki var frumvarp þingmannsins ekki tekið inn í þá umræðu. Ég held að það væri mjög gott að það yrði gert með bæði málin, af því að þetta er ákveðið vandamál. Þetta er líka vandamál sem við höfum verið að velta fyrir okkur í menntamálanefnd og þar er nú til umfjöllunar löggjöf um fjölmiðla. Það á að vera þannig að tilgreina á á vefsíðu hinnar nýju Fjölmiðlastofu hverjir séu hinir raunverulegu eigendur að fjölmiðlum. Miðað við það sem við sáum í skýrslunni — hvað kölluðu þeir það? Það var „óþekktur maður/Asía“, en þá var það einhver óþekkt kennitala sem enginn vissi hver var. Við gætum staðið frammi fyrir því að þannig yrði það með vátryggingafélögin þó að verið væri að birta þessar upplýsingar og þannig gæti það líka orðið með fjölmiðla.

Eins og hv. formaður viðskiptanefndar benti á er verið að reyna að taka á þessu en í vinnu okkar með þetta mál og löggjöfina um fjármálafyrirtækin kom fram að við höfum mjög miklar áhyggjur af Fjármálaeftirlitinu. Við erum ekki svo viss um að það hafi raunverulega svo mikið breyst innan þeirrar stofnunar (Forseti hringir.) og svo margt í þessari löggjöf og annarri löggjöf sem við erum að fást við í viðskiptanefnd byggist á því að Fjármálaeftirlitið fylgi löggjöfinni eftir af miklum krafti.