138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[19:50]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmálamanna þessi dægrin er að læra af því sem aflaga hefur farið í tengslum við hrun efnahagskerfisins. Gefin hefur verið út skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fram koma veigamiklar upplýsingar um það sem fram fór á íslenskum fjármálamarkaði og þeim mörkuðum sem störfuðu í tengslum við hann. Það er okkar verkefni og ekki síst verkefni hæstv. ríkisstjórnar að læra af reynslunni og reyna að bæta löggjöf á öllum þeim sviðum þar sem fyrirtækin og stjórnendur þeirra fóru út af og sömuleiðis þar sem stjórnvöld, hvort sem það er ríkisstjórn, Alþingi eða stjórnsýslan, brugðust.

Á þinginu hafa á síðustu dögum og í opinberri umræðu verið á dagskrá ýmis mál sem tekin eru til umfjöllunar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og það er mjög miður að fylgjast með framgöngu hæstv. ráðherra þegar þeir eru spurðir út í það hvernig þeir ætla að bregðast við þeim ábendingum sem fram koma í rannsóknarskýrslunni varðandi einstök mál. Ég rifja upp orðaskipti hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, frá umræðunni fyrr í dag þar sem hann átti orðastað við hæstv. utanríkisráðherra og spurði hann hvernig ríkisstjórnin og hæstv. utanríkisráðherra ætlaði að ganga fram í Icesave-málinu í framhaldi af orðum sem ráðherra lét falla í fréttaviðtali fyrir síðustu helgi. Það var ekki að sjá á hæstv. utanríkisráðherra að það skipti hann nokkru einasta máli eða hæstv. ríkisstjórn það sem fram kemur í rannsóknarskýrslunni um Icesave-málið og málefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og ábyrgð ríkisins á innlánum almennt. Ekki var hægt að lesa annað út úr orðum hæstv. utanríkisráðherra en að ríkisstjórnin hygðist jafnvel halda áfram í Icesave-málinu eins og ekkert hefði í skorist, eins og rannsóknarskýrslan hefði aldrei verið skrifuð og þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál hefði aldrei farið fram. Ég tek þessi orðaskipti hv. þm. Bjarna Benediktssonar og hæstv. utanríkisráðherra sem dæmi um það hvernig ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru að bregðast við því efnahagshruni sem hér varð.

Við erum með til umfjöllunar í þinginu á eftir frumvarp um fjármálafyrirtæki sem er svona bútasaumur á löggjöf sem þarfnast endurskoðunar við en endurspeglar ekki það sem frumvarpið ætti í raun að endurspegla, þ.e. að ríkisstjórnin hafi dregið lærdóm af þeirri reynslu sem við urðum fyrir í bankahruninu. Sama má segja um annað frumvarp frá ríkisstjórninni, sem er til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd, sem varðar nýja löggjöf um innstæðutryggingar. Þar ætla menn að hjakka í sama farinu og virðist vera fyrirmunað að læra af þeirri reynslu sem var svo bitur og við urðum fyrir. Ég hef það mikla trú á hv. þingmanni viðskiptanefndar að hann hafi skilning á þeim sjónarmiðum sem ég er að setja fram. Af hverju geri ég það? Það er vegna þess að það frumvarp sem við ræðum hér, frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi, er einmitt af þessum meiði.

Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið í umræðunni að þetta frumvarp á sér töluverðan aðdraganda. Vinna við samningu þess hófst á árinu 2007 og það er margt ágætt í frumvarpinu, ýmis efnisatriði sem óhætt er að taka undir og gætu verið til bóta. En það sem rannsóknarskýrslan á að kenna okkur og það sem hún á kannski fyrst og fremst að kenna stjórnarliðum og ríkisstjórninni er að það eru ekki ásættanleg vinnubrögð að ríkisstjórnin leggi fram frumvörp í mikilvægum málaflokkum áður en skýrsla rannsóknarnefndarinnar kemur fram og neiti síðan að draga málin til baka í ljósi þeirra miklu og mikilsverðu upplýsinga sem fram koma í rannsóknarskýrslunni og reyni þá að samræma þau sjónarmið sem þar koma fram við þá stefnumörkun sem sjá má í þeim frumvörpum sem við ræðum hér. Hvorki þetta frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi né önnur þau frumvarp sem ég hef nefnt taka tillit til þess sem fram kemur í skýrslunni sjálfri enda er það ekkert skrýtið. Eins og ég sagði áðan voru frumvörpin lögð fram áður en skýrslan var birt og frumvörpin bera þess augljós merki. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór í nokkuð ítarlegu máli yfir nokkur þeirra atriða sem við sjálfstæðismenn teljum að betur megi fara varðandi vátryggingastarfsemi og vátryggingamarkaði. Það er sammerkt með þeim málum sem ég hef nefnt að í þeim öllum er Fjármálaeftirlitinu ætlað mun stærra og veigameira hlutverk en því hefur verið ætlað fram til þessa. Fjármálaeftirlitið mun fá auknar valdheimildir og miklu meira svigrúm til að meta rekstur vátryggingafélaga en það hafði áður. Ég hefði talið að í ljósi þessa væri ástæða til að við tækjum öll þessi frumvörp til gagngerrar skoðunar og þá í sameiningu og þar með lögin sem gilda um Fjármálaeftirlitið. Ég á mjög erfitt með að skilja af hverju þetta er ekki gert í heildarsamhengi og í tengslum við það sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ég tel eins og fleiri hv. þingmenn að það sé mjög mikilvægt að þetta frumvarp gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna þess að í frumvarpinu eru veigamikil atriði sem ekki er tekin afstaða til eins og t.d. það hvort skynsamlegt sé að viðskiptabankar megi eiga vátryggingafélag og öfugt. Þetta er grundvallarspurning sem menn verða að gera upp við sig hvernig þeir vilja svara, ekki bara ríkisstjórnarflokkarnir á Íslandi heldur eru menn að taka þessi atriði til gagngerrar skoðunar í löndunum í kringum okkur þar sem áföll hafa orðið. Ég tek sem dæmi málefni bandaríska tryggingafélagsins AIG. Þar í landi eru menn mjög mikið að velta fyrir sér samskiptum viðskiptabanka og vátryggingafélaga.

Hér hefur verið nefnt að í þessu frumvarpi sé ekki ráðist í endurbætur á lögum um endurskoðendur. Það er auðvitað heildarlöggjöf sem þarf að fara yfir í ljósi þess sem m.a. kemur fram í rannsóknarskýrslunni og ekki síður í ljósi þeirra atburða sem eiga sér stað núna síðustu daga. Verið er að stefna endurskoðendum fyrir störf þeirra og þátt þeirra í ýmsu því sem átt hefur sér stað á íslenskum fjármálamarkaði. Og það er mjög mikilvægt að taka málefni og ábyrgð svokallaðra skuggastjórnenda til athugunar. Við hljótum í ljósi reynslunnar að velta því fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til að lögfesta mjög skýr ákvæði um ábyrgð manna sem stjórna félögum, hvort sem það eru vátryggingafélög eða fjármálafyrirtæki, þrátt fyrir að sitja ekki í stjórnum félaga eða hafa þar formlega stöðu lögum samkvæmt. Það er auðvitað hárrétt að rekin hafa verið dómsmál sem varða ábyrgð skuggastjórnenda eins og mál þrotabús TL-rúllna, ef ég man rétt, gegn Húsasmiðjunni sem rekið var í Hæstarétti á sínum tíma. Auðvitað er það mál að sínu leyti fordæmisgefandi en það breytir því ekki að í ljósi þeirrar reynslu sem hér hefur orðið hefði ég talið að það væri ákaflega mikilvægt að um þetta giltu skýrar reglur.

Ég tek undir með hv. þingmanni og félaga mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að erfitt er að sjá hver þörfin er fyrir það að banna gagnkvæm tryggingafélög líkt og gert er í frumvarpinu. Ég fæ ekki séð að það séu neinar ríkar ástæður sem réttlæta þá stefnumörkun. En eitt það athyglisverðasta sem fram kemur í frumvarpinu er það að lagt er til að vátryggingafélög megi eingöngu reka í formi hlutafélags. Hvað á það að þýða hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna að leggja það til að vátryggingafélög megi einungis reka í formi hlutafélags? Getur hv. þm. Lilja Mósesdóttir upplýst mig um hvað býr þar að baki? (LMós: Búin að því.) Ég hef staðið í þessum ræðustól klukkustundum saman og setið hér í þingsal svo dögum skiptir og hlustað á þingmenn Vinstri grænna, eins og hv. þm. Ögmund Jónasson, hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon og fleiri hv. þingmenn, halda því fram að hlutafélagaformið sé rót alls ills í íslensku viðskiptalífi og það megi alls ekki undir nokkrum kringumstæðum, sérstaklega þegar um er að ræða rekstur sem varðar almannahag, reka slík fyrirtæki í hlutafélagaformi. Ég minnist t.d. umræðunnar um Ríkisútvarpið ohf., fyrst um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. en síðan um Ríkisútvarpið ohf. Þá voru haldnar fimm eða sex klukkutíma ræður ræðu eftir ræðu gegn hlutafélagaformi og svo koma þessir hv. þingmenn núna og leggja það til að vátryggingafélög megi einungis reka í formi hlutafélags. Er nema furða að maður reki upp stór augu þegar maður les frumvarpið og áttar sig á þessu. Hvað gengur mönnum til? Ef eitthvert fólk í þjóðfélaginu hefur áhuga á að reka vátryggingafélag og telur að það þjóni hagsmunum sínum betur að gera það t.d. á sameignarfélagsformi, af hverju í ósköpunum er þeim það ekki heimilt? Gerir hv. þm. Lilja Mósesdóttir sér grein fyrir því að hlutafélög eru félög með takmarkaðri ábyrgð sem þýðir það að eigendur félagsins bera takmarkaða ábyrgð? Í sameignarfélögum gildir ábyrgð einn fyrir alla og allir fyrir einn, þ.e. ríkari ábyrgð á hendi eigenda félagsins en gildir í hlutafélögum. Auðvitað er ég þeirrar skoðunar að hlutafélagaformið sé langbesta rekstrarformið, hvort sem er á vátryggingamarkaði eða annars staðar, en ég er þó þeirrar skoðunar að leyfa eigi þeim sem standa í slíkum rekstri að ákveða það fyrir sjálfa sig og þann rekstur og það fjármagn sem þeir setja í reksturinn á hvaða félagaformi þeir reka sín fyrirtæki. Bæði af þeim ástæðum og ekki síður í ljósi sögunnar er mér algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna ríkisstjórnin ákveður að fara þá leið sem ég hef rakið hér.

Ég vil vekja athygli á einu atriði til viðbótar. Í 54. gr. frumvarpsins er fjallað um stjórn vátryggingafélaga og í 4. mgr. 54. gr. segir, með leyfi forseta :

„Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir og hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá menntunarkröfum skv. 1. málsl. á grundvelli reynslu og þekkingar viðkomandi.“

Eðlilegt er að gerðar séu kröfur til stjórnenda vátryggingafélaga og þær eru býsna miklar í öðrum ákvæðum þessarar greinar, t.d. er talað um að þeir sem sitji í stjórn megi ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um bókhald og ársreikninga o.s.frv. Allt er þetta mjög eðlilegt vegna þess að þeir sem hafa með stjórn vátryggingafélags að gera fara með mikla hagsmuni. Þetta er allt saman eðlilegt og í fullkomnu samræmi við aðra löggjöf sem gildir um aðrar stéttir eins og t.d. lögmenn og endurskoðendur. Báðar þessar stéttir, lögmenn og endurskoðendur, verða auðvitað að hafa forræði á eigin búi vegna þess að annars geta þeir ekki farið með fjárhagshagsmuni fyrir aðra. Þetta eru auðvitað sjónarmið sem eiga við í vátryggingabransanum en ég skil ekki hvers vegna talað er um og það gert að skilyrði að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar í vátryggingafélögum skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist vel í starfi. Ef við förum aðeins yfir bankahrunið sem varð hér á landi held ég að ég megi leyfa mér að segja að langflestir helstu gerendur í bankahruninu fyrir utan kannski einn voru með mjög fínar prófgráður upp á vasann, mjög fínar prófgráður frá bestu háskólum. Það leiddi hins vegar ekki til þess að þeir gerðu engin mistök og sumir þeirra hafa hugsanlega farið á svig við lög eða ekki sýnt af sér siðlega framgöngu á þeim markaði sem þeir störfuðu á. Þetta á allt saman eftir að koma í ljós, ég ætla ekki að slá neinu föstu. En til hvers er það að vera að draga menn í dilka eftir því hvort þeir eru með háskólapróf eða ekki? Ég er með háskólapróf og allt í góðu lagi með það en það er líka til fólk sem getur ýmislegt í samfélaginu sem ekki hefur lokið háskólaprófi. Það hefur kannski starfað í vátryggingastarfsemi svo árum eða áratugum skiptir og hefur alla þá hæfileika til brunns að bera sem eru nauðsynlegir til að sitja í stjórn eða verða framkvæmdastjórar í vátryggingafélagi. Hvers vegna ættum við að leiða það í lög að þetta fólk þurfi að fara á biðilsbuxunum til Fjármálaeftirlitsins til að fá undanþágu frá menntunarkröfunum? Af hverju getum við ekki treyst eigendum vátryggingafélaganna í framtíðinni til að velja það fólk sem það treystir best til að stýra félögum sínum? Það er ekkert samasemmerki milli þess að vera með háskólapróf og að kunna alla skapaða hluti. Þó svo að menn séu með háskólapróf er ekki þar með sagt að þeim verði ekki á nein mistök og að siðleysi þekkist ekki í þeirra orðabók. Ég hefði talið eðlilegt að fólk fengi að njóta sannmælis vegna reynslu sinnar og þekkingar og að löggjafinn væri ekki með puttana í þessum málum með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi. Ég tel alveg einboðið að þeirri hæfisreglu sem fram kemur í 4. mgr. 54. gr. verði breytt, enda finnst mér ekkert sérstaklega smekklegt að draga fólk í dilka eftir því hvort það er með þessa eða hina prófgráðuna eða ekki.

Virðulegi forseti. Auðvitað eru fjölmörg önnur atriði sem ástæða væri til að fara yfir í þessu frumvarp en ég segi eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan, hér er fyrst og fremst verið að setja plástra á ýmis sár. Þetta frumvarp mun hins vegar, þó að margt í því sé ágætt, ekki koma í veg fyrir það að sú saga sem við höfum upplifað endurtaki sig, það þarf miklu meiri (Forseti hringir.) og heildstæðari vinnu til að tryggja að svo verði.