138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann til að gera nákvæmlega það sem hann sagði í ræðu sinni að hann vildi gera; hann rifjaði það upp þegar hann var að tala um fé án hirðis. Ég vil líka hvetja hann til þess að skrifa — við getum þess vegna komið á lengri utandagskrárumræðu um það hér í þinginu — um það hvers konar fjármálamarkað við viljum byggja á Íslandi. Ég held að við séum öll sammála, hvort sem við erum í meiri hluta eða minni hluta hér á Alþingi, um að við þurfum að komast að niðurstöðu um það hvers konar fjármálamarkað þjóð sem er með 320 þúsund einstaklinga ræður við. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki skoðað nógu vel.

Áttundi liðurinn, sem Jännäri bendir á, er það að við þurfum að vera mjög virk í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggjafar og eftirlits með fjármálastarfsemi. Rannsóknarnefndarskýrslan bendir á það og hefur miklar áhyggjur af því t.d. að innstæðutryggingar séu tryggðar í evrum sem getur verið mjög erfitt, eins og við sáum, þegar gengið fellur og skuldbindingar innstæðutryggingarsjóðsins tvöfaldast eða þrefaldast við það eitt. Við höfum líka séð hvernig við höfum verið að innleiða EES-tilskipanir, að við höfum ekki verið að reyna að grípa inn í ferlið fyrr með virku samstarfi. Ef við horfum síðan á það hvar verið er að skera niður hér á Alþingi erum við að skera niður í alþjóðlegu samstarfi. Það var ætlunin að auka t.d. samstarfið við Evrópuþingið, þar sem mun meira af löggjafarvinnunni fer nú fram en áður var innan Evrópusambandsins, en þar er verið að skera það niður.

Ég hef líka velt því fyrir mér hvort við gætum í auknum mæli farið í meira samstarf við Norðmenn. Norðmenn hafa verið með mjög virkt og gott fjármálaeftirlit. Þeir eru með mjög áhugaverða löggjöf, hvort sem við lítum á varðandi almennar fjármálastofnanir eða sparisjóði. (Forseti hringir.) Þannig að ég held að við ættum alveg tvímælalaust að horfa meira til þess að starfa með nágrönnum okkar og líka vera mun virkari í undirbúningi (Forseti hringir.) löggjafar innan Evrópusambandsins.