138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi runa spurninga minnti mig á það þegar ég var keppandi í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur og átti að svara hraðaspurningum. Þetta voru margar spurningar og efnismiklar. (Gripið fram í.)

Varðandi skuggastjórnendurna er ég reiðubúinn til að fara í samstarf við hv. þingmann um að útfæra ábyrgðarreglur sem um þá gilda, enda er það sérstaklega tekið fram í nefndaráliti því sem við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skrifum undir, við gagnrýnum að ekkert sé tekið á þessum atriðum. Í því felst auðvitað að við erum reiðubúnir til að ganga til samstarfs um slíkt.

Varðandi eignarhaldið á hinum einkavæddu bönkum er alveg rétt að lagðar hafa verið til breytingar sem ættu að verða til þess að það yrði upplýst, en eins og hv. þingmaður veit ef hann hefur hlustað á hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson og lesið nefndarálit okkar höfum við sjálfstæðismenn viljað ganga miklu lengra í því að fá upplýst hverjir standa á bak við kröfurnar sem mynda eignarhaldið á bönkunum. Við höfum lagt fram breytingartillögur til að þessi upplýsingagjöf verði ekki í einhverju skötulíki. Það er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega nú á tímum þegar við erum t.d. í óvissu um það hvernig við ætlum að haga málefnum innstæðutryggingarsjóðsins, að við vitum nákvæmlega hverjir eiga bankana, (Forseti hringir.) hvaða innstæður er verið að tryggja og hverjir bera ábyrgð á þeim.