138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki kallað hv. þingmann fullu nafni en leiðrétti það hér með, Einar K. Guðfinnsson.

Við framsóknarmenn lögðum á 137. löggjafarþingi fram tillögu til þingsályktunar um endurreisn íslensku bankanna þar sem við töldum að enn væri möguleiki að leiðrétta þau mistök sem voru gerð við neyðarlögin og minnka bankakerfið, miða stærð þess við innlán en ekki útlán og skilja þannig mestu innlendu útlánin eftir í gömlu bönkunum. Við töldum líka hægt að nýta endurskipulagningu bankanna til að hverfa frá verðtryggingu útlána og gjaldeyrishöftum. Það væri þannig líka mikilvægt að móta ríkinu skýra kröfuhafastefnu sem og eigendastefnu vegna bankanna.

Mér hefur fundist mjög áhugavert að vera hérna í dag og hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins ræða um pólitíska stefnumörkun um fjármálamarkaðinn. Ég er eiginlega enn þá að bíða eftir því að heyra frá þingmönnunum um þeirra pólitísku stefnumörkun um fjármálamarkaðinn. (EKG: Hlustaðirðu ekki á ræðu mína?) Það kemur t.d. fram í nefndaráliti 2. minni hluta að ekki var rætt nægilega um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, en ekki kemur fram í nefndarálitinu nákvæmlega hvort þingmaðurinn vill aðskilja þetta eða ekki þó að hann hafi tilgreint það í ræðu sinni þegar ég var búin að spyrja annan þingmann hver skoðun hans væri á slíkum aðskilnaði.

Líka hefur verið rætt um þá spurningu hvort við eigum að vera með dreift eignarhald eða fáa eigendur að bönkunum. Það virðist heldur ekki alveg skýrt (Forseti hringir.) hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) um þessa þætti þannig að það væri mjög áhugavert að heyra frá fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) hvaða skoðun hann hefur t.d. á þessum tveimur atriðum.