138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki hægt að finna nógu sterk orð til að lýsa þeim hræðilega verknaði sem átti sér stað í fyrrinótt þegar ísraelskir hermenn réðust til atlögu við skipalestina sem lagði frá Kýpur til að reyna að aðstoða Palestínumenn á Gaza-svæðinu. Abbas Palestínuforseti kallaði þetta fjöldamorð, Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, kallaði þetta ríkishryðjuverk, íslenska ríkisstjórnin kallaði þetta svívirðilegan glæp.

Íslenska ríkisstjórnin var með þeim fyrstu til að fordæma með mjög harkalegu orðfæri þann verknað strax í gærmorgun. Íslenska ríkisstjórnin var reyndar hin fyrsta sem setti fram kröfu um tafarlausa rannsókn á þessum verknaði til að þeir sem sekir væru yrðu dregnir að lokum fyrir þann dóm sem bær er til að kveða upp úrskurð um verknað af þessu tagi. Sömuleiðis lagði íslenska ríkisstjórnin mikla áherslu á að þessi atburður yrði notaður til að efla alþjóðlega samstöðu um að aflétta herkvínni sem íbúar Gaza hafa verið í síðustu þrjú árin. Við þekkjum það öll, eins og hv. þm Ögmundur Jónasson sagði áðan, að þar er ein og hálf milljón íbúa á einu þéttbýlasta svæði jarðarinnar og þeir eru nánast sviptir öllum samgangi við umheiminn. Fyrir skömmu var í fyrsta skipti í þrjú ár leyft að flytja klæðnað inn á svæðið. Þarna var um að ræða alþjóðlega mannúðarhreyfingu, tyrkneska að upplagi, sem var að beita sér fyrir því að rjúfa hafnbannið sem þarna hefur verið í þrjú ár til að hjálpa Palestínumönnum. Ísraelsmenn sem voru 120 sjómílur frá landi gripu til þess ráðs að ráðast til uppgöngu í skipin og beita skotvopnum.

Sú stofnun á Íslandi sem nýtur hvað mest trausts samkvæmt nýlegum könnunum, íslenska Ríkisútvarpið, leitaði sér heimilda og kannaði fullyrðingar ísraelskra stjórnvalda, sem m.a. er hægt að lesa á heimasíðu ísraelska utanríkisráðuneytisins í dag, um að skipverjar hefðu verið vopnaðir. Hvað fundu þeir? Þeir fundu barefli og þeir fundu teygjubyssur. Segir það ekki allt sem segja þarf? Hríðskotabyssum er beitt gegn fólki sem ver sig með teygjubyssum. Nú loksins eftir langa þögn Ísraelsmanna er byrjað að sleppa þeim sem teknir voru um borð í þessum skipum og þeir eru farnir að segja frá því hvað gerðist. Þeir harðneita því að nokkur mótstaða hafi verið veitt fyrir utan það að menn tóku saman örmum og mynduðu mannlegan skjöld. Gegn þessum mannlega skildi notuðu Ísraelsmenn ekki bara táragas, plastkúlur og rafbyssur heldur hríðskotabyssur. Og þótt erfitt sé að fá nákvæmar upplýsingar blasir það samt sem áður við að samkvæmt alþjóðlegum fréttaveitum eru 9–19 manns látnir og hugsanlega fast að 60 slasaðir eftir þetta. Auðvitað hljótum við að fordæma þetta og auðvitað hljótum við að skoða allt það sem hægt er að gera til að fá Ísraelsmenn til að láta af harðýðgi sinni gagnvart Palestínumönnum. Og ég tel sjálfsagt að skoða bæði viðskiptaþvinganir og slit á stjórnmálasambandi.

Hv. þingmaður beinir til mín spurningum sem varða þá ályktun sem meiri hluti utanríkismálanefndar hefur samþykkt. Ég vil þá nota tækifærið og þakka honum og utanríkismálanefnd fyrir að hafa brugðist svo skjótt við. Ég tel að það sé sjálfsagt að utanríkisráðherra verði við því að meta í samvinnu við aðrar þjóðir hvaða úrræði virka best, e.t.v. slit á stjórnmálasambandi eða viðskiptaþvinganir.

Það eru tvær hliðar á öllum málum. Viðskiptaþvinganirnar dugðu vel gegn Suður-Afríku, þeim var ekki beitt fyrr en Suður-Afríkumenn sjálfir, þ.e. hin blakka þjóð, hinn svarti meiri hluti, báðu um það. Við þurfum líka að hlusta á það sem fólkið á svæðinu hefur að segja. Það er önnur hlið á viðskiptabanni, t.d. sú að í gegnum Ísrael eru nánast öll viðskipti og samskipti Palestínumanna bæði á herteknu svæðunum og á Gaza. Það gæti komið sér illa gagnvart íbúunum þar. Þess vegna tel ég að menn eigi ekki að rasa um ráð fram. Við eigum að meta þetta í samráði við heimamenn. Meðal annars þess vegna ætlaði ég, eins og ég greindi þinginu frá fyrr í vetur og var búinn að ákveða, að fara til Gaza til að skoða þessi mál. Ég tel líka sjálfsagt að skoða önnur úrræði sem gætu nýst vel, eins og t.d. alþjóðlegt fjárfestingarbann á Ísrael sem mundi hafa áhrif á Ísrael án þess að hafa áhrif á Palestínumenn. Ég segi hins vegar að nú er mál að linni og mér finnst sjálfsagt að íslenska þingið lýsi með einhverjum hætti yfir stuðningi, þótt ekki sé nema í þessum umræðum, við þá ályktun sem meiri hluti utanríkismálanefndar góðu heilli samþykkti á fundi sínum áðan vegna þess að mótmæli af þessu tagi, jafnvel hótun um slit á stjórnmálasambandi, skipta máli.