138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[15:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil koma hér upp og fagna þessu frumvarpi. Ég styð það heils hugar. Ég vil vekja athygli á því að með þessu er verið að ganga skrefi lengra en áður hefur verið gert og heimila einhleypum konum með skerta frjósemi að fá bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Þetta tel ég vera ánægjulegan áfanga. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja hv. heilbrigðisnefnd til að taka í framhaldi af þessari niðurstöðu til athugunar hvort ekki sé orðið tímabært að huga að því að heimila svokallaða staðgöngumæðrun hér á landi. Að mínu mati höfum við stigið enn eitt skrefið í átt til þess að heimila það vegna þess að hér er um mjög sambærileg álitamál að ræða. Ég segi já.