138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir andsvarið. Það er alveg rétt hjá honum að skilja má setninguna sem hann benti á í röngu samhengi, að Ríkisendurskoðun hafi óskað eftir stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands. Það er ekki rétt heldur benti hún á ákveðin atriði varðandi þau mál.

Varðandi það sem hv. formaður segir um að ekki eigi saman að óska eftir stjórnsýsluúttekt og afgreiða lokafjárlög 2008, þá er með afgreiðslu lokafjárlaga að vissu leyti verið að kvitta undir endalok fjárlagaársins. Það er verið að gera það núna fyrir þetta mesta hrunár Íslandssögunnar þar sem almenningur og skattborgarar í landinu bera svo skarðan hlut frá borði að hörmulegt er. Það að menn skuli kvitta undir þau lokafjárlög án þess að búið sé að gera ítarlega stjórnsýsluúttekt á því sem gerðist finnst mér óásættanlegt. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar tekur ekki mjög ákveðið á þessu sérstaka atriði og ég tel að það sé einfaldlega hlutverk fjárlaganefndar að láta rannsaka það eða beina því til forsætisnefndar að það verði rannsakað. Ég tel að það sé í raun mjög hógvær bón af minni hálfu sem fulltrúa almennings að fá botn í þetta mál því að gríðarlegir fjármunir hafa farið forgörðum hér, fjármunir almennings.