138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar að koma hér að. Annars vegar þarf eins og við ræddum á fundi með forseta í morgun að koma því algjörlega á hreint hvaða mál það eru sem eiga að fara hér í gegn á næstu dögum. Vona ég svo sannarlega að þeim verði forgangsraðað út frá þessum brýnu hagsmunamálum sem snúa að heimilum og fyrirtækjum, atvinnulífinu í landinu. Hins vegar, frú forseti, þá kom það verulega á óvart að það er liðinn klukkutími frá því að þingflokksformenn ræddu með forseta dagskrá dagsins og þá var gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu núna. Svo tilkynnir forseti að það sé búið að fresta atkvæðagreiðslu til kl. 3. Ég óska líka skýringa á því, líkt og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði, hverju það sæti að fresta atkvæðagreiðslu með þessum hætti rétt eftir að við erum búin að ræða það á fundi okkar með forseta hvernig þingstörfin eigi að fara fram í dag.

Ég hef áhyggjur af því ef þetta er viðmiðið sem á að setja (Forseti hringir.) að hlutirnir breytist svona hratt.