138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Miðað við þá áætlun sem gefin hefur verið út af hálfu forseta þingsins um áætluð þinglok þá eigum við sjö daga eftir, að þessum degi meðtöldum. Það er auðvitað ekki heilög ákvörðun, það er ljóst að hér gætum við verið lengur að störfum ef því er að skipta. En ég held að mikilvægt sé að það komi fram í þessu samhengi hvort hæstv. forseti hyggst halda sig við þá ákvörðun að þingstörfum ljúki 15. júní eins og gert var ráð fyrir og hvort hæstv. forseti er ekki sammála því sjónarmiði sem hér hefur komið fram að það þurfi að vera mjög skýr og ákveðin forgangsröðun í störfum þingsins til þess að unnt verði að ljúka þeim málum sem nauðsynlegt er að klára, ekki sem einhver ráðherra eða nefndarformaður (Forseti hringir.) eða einhver annar vill hugsanlega klára heldur sem nauðsynlegt er þjóðarinnar vegna að verði kláruð áður en þingið fer í sumarfrí.