138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir spurningarnar og fagna því að það eigi að fara ítarlegar yfir lögin. Ég tel að í ljósi þess að við erum að staðfesta lokafjárlögin fyrir árið 2008 eigi um leið að fara fram stjórnsýsluúttekt og Ríkisendurskoðun taki sérstaklega út það sem miður fór áður en við stimplum reikninginn. Hv. þingmaður nefnir að hér sé verið að staðfesta tölurnar. Það má vel vera og ég geri ekki athugasemdir við þær en vek athygli á þessum meginmun, að ég mundi ekki vilja gera slíkt fyrr en hitt lægi fyrir.

Það er líka rétt að meiri hluti fjárlaganefndar létti trúnaði af gögnum eftir, því miður, langt og mikið strögl um að leynd yrði létt af ýmsum trúnaðargögnum sem stungið var undir stól. Kannski má segja að ekki sé við fjárlaganefnd að sakast í þeim efnum nema að því leyti að það var engra annarra en fjárlaganefndar að létta leyndinni af gögnunum, sem hún gerði seint og um síðir. Ef hún hefði gert það strax og séð ljósið strax hefðum við örugglega getað hlíft þjóðinni við þeirri leiðinlegu ásýnd sem kom á málið og endalausar þrætur um form í staðinn fyrir efnisatriði málsins.